Eygló Björk Ólafsdóttir
Reykjavíkurmær langt aftur í ættir, fædd þar og uppalin. Var lengi í hestamennsku og hef alltaf haft sterka tengingu við náttúruna, var í sveit á sumrin svona eins og krakkar gerðu á Íslandi. Ég hef alltaf haft áhuga á tungumálum, hef ferðast mikið og hef starfað og búið í Sviss og á Ítalíu. Er svo heppin að vinna og áhugamál fara saman, þ.e. að búa til góðan og heilsusamlegan mat.
Viðskiptafræðingur frá HÍ. Í dag rekum ég og maðurinn minn, Eymundur Magnússon, Móður Jörð ehf sem er matvælafyrirtæki á sviði lífrænnar ræktunar.
Ferðalög, menning, matur og umhverfismál. Ég er grasrótarmanneskja líka, tók þátt í að stofna Slow food deild hér á Íslandi árið 2001 eftir að þau heilluðu mig í einni af Ítalíu heimsóknum mínum. Vil helst hafa alltaf eitthvað svona viðfangsefni til að þoka málum áfram í rétta átt.
Á unglingsárum var ég lengi í handbolta og spilaði með Fram þar til ég fór í menntaskóla. Í dag geng ég mikið, syndi og hleyp af og til. Eins finnst mér mjög gott að gera jóga eða nokkrar pilates æfingar með því.
Eymundur er fæddur í Reykjavík líkt og ég og bjó þar framan af en hóf búskap í Vallanesi 1979. Við giftum okkur árið 2010, þá sagði ég starfi mínu lausu í Reykjavík og við fórum að vinna saman. Við búum mestan partinn í Vallanesi en höldum einnig heimili í Reykjavík, allt eftir árstíðum og hvernig verkefnin liggja hverju sinni.
Við ræktum korn og grænmeti og framleiðum matvörur sem grundvallast á hráefni úr jurtaríkinu. Heilkornavörur úr byggi og heilhveiti, hrökkbrauð, sultur og grænmetisrétti s.s. grænmetisbuff, chutney og sýrt grænmeti o.fl. Einnig erum við með ferðaþjónustu í smáum stíl og rekum verslun á sumrin. Á ársgrundvelli eru starfsmenn 7 en í fullu húsi á sumrin eru 14 manns í Vallanesi, þ.e. starfsmenn, verknámsnemar og sjálfboðaliðar.
Stækkun vörulínunnar sem átt hefur sér stað undanfarin ár, og við erum hvergi nærri hætt !
Í frjálsu umhverfi er það í stuttu máli frábært tækifæri að hafa land, aðstæður og forsendur til að skapa og láta reyna á sínar hugmyndir. Það ber einnig að hafa í huga að við önnumst alla fullvinnslu, markaðssetningu og dreifingu til viðskiptavina sjálf. Við erum því eins og hver annar matvælaframleiðandi, fyrir utan það að rækta okkar grunnhráefni það að auki. Það er auk þess góður lífstíll að rækta sinn eigin mat og hafa úr að velja fersku úrvals hráefni alla daga.
Við fáum í vaxandi mæli til okkar ferðamenn sem vilja kynnast starfseminni eða nýta sér gistimöguleikana hér. Margir koma til að versla vörur Móður Jarðar s.s. Íslendingar sem vilja sjá hvaðan varan kemur, en við höfum einnig ratað í erlend tímarit og handbækur sem ferðamenn notast við. Við bjóðum gestum okkar upp á íslenskan heilkorna morgunverð úr okkar hráefni sem borinn er fram í einu gróðurhúsinu, þetta er skemmtileg viðbót og vekur mikla ánægju.
Það er alltaf eitthvað í burðarliðnum, við erum um þessar mundir að betrumbæta allar umbúðir og vinna að nýjungum í sýrðu grænmeti og þróa vörur á grundvelli Perlubyggsins okkar. Eins bíðum við spennt að sjá hvort rúgurinn okkar nær fullum þroska, það telst þá til nýjunga í kornræktinni hjá okkur. Repjuolían opnar auk þess nýjar víddir fyrir okkur, íslensk matarolía er nýjung.
Smjör, lífrænt ræktaðar sítrónur og bita af góðum osti. Að öðru leyti úrval af íslensku grænmeti auðvitað.
Ég er í vaxandi mæli grænmetisæta og takturinn þar ræðst dálítið eftir árstíðum t.d. hvað mig langar í. Uppáhalds matsölustaðurinn minn er Gistihúsið á Egilsstöðum sem er glæsilegur í allri umgjörð og matseld.
Núna er ég að lesa Vonarlandið eftir Kristínu Steinsdóttur. Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson er sennilega ein áhrifamesta bók sem ég hef lesið.
Mér finnst ég „tríta“ mig á hverjum degi. Er í góðum félagsskap, borða góðan mat og hef skemmtileg viðfangsefni. Á ferðalögum væri það gott „hamam“ sem tekur nokkra klukkutíma.
„Vertu róleg“!
Gerandi það sem ég er að gera, þróa áfram og reka Móður Jörð með manninum mínum og kannski einhverjum fleirum.