Í ársbyrjun fór nýstárleg aðferð við að útbúa eggjalausan marengs eins og eldur í sinu um internetið.
Eggjalaus marengs frá Mæðgurnar.is
Á fallegum sumardegi fyrir stuttu langaði okkur mæðgurnar að bjóða upp á skemmtilegan eftirrétt. Við áttum ný íslensk jarðaber og langaði í eitthvað sætt með þeim. Við ákváðum að útbúa litlar pavlóvur og bera þær fram með chili-jarðaberjum, dökku súkkulaði og kókosrjóma. Hvílíkt sælgæti! ....en innhaldið kom gestunum á óvart.
Í ársbyrjun fór nýstárleg aðferð við að útbúa eggjalausan marengs eins og eldur í sinu um internetið.
Í staðinn fyrir að þeyta eggjahvítur er kjúklingabaunavatn þeytt á sama hátt!
Frakkinn Joël Roessel er sagður hafa uppgötvað þennan sérstaka eiginleika vökvans, stuttu síðar myndaðistsamfélag áhugafólks um aðferðina á facebook þar sem tilraunagleðin fær að njóta sín og þeytt baunavatn (aquafaba) er notað í allskyns uppskriftir í staðinn fyrir eggjahvítur.
Okkur finnst þetta alveg frábær nýting á hráefni sem annars færi að mestu til spillis. Við notum svo mikið af kjúklingabaunum, bæði í hummus, falafel, pottrétti og salöt. Forsoðnar baunir í krukku eru fljótleg leið til að gefa máltíðinni prótein og fyllingu svo við grípum mjög oft í þær. Okkur finnst því alveg ótrúleg gaman að hægt sé að nýta vatnið sem umlykur baunirnar í bakstur og sælgætisgerð.
Þetta er eiginlega svolítil alkemía. Vatnið þeytist í hrærivélinni og umbreytist í stífa froðu, eins og fyrir töfra.
Við notuðum vatnið af lífrænum kjúklingabaunum, lífrænan hrásykur og lífræna dropa til að gefa bragð.
Pavlóvur
- safinn úr 1 krukku af lífrænum kjúklingabaunum
- 3 msk lífrænn hrásykur, malaður í kryddkvörn
- 1 tsk karamelludropar eða vanilla
Aðferð
- Setjið safann úr kjúklingabaununum í hrærivél og þeytið á hæsta hraða í 10 mín.
- Bætið hrásykrinum út í, 1 msk í einu og látið þeytast áfram á hæsta hraða í 5 mín í viðbót.
- Bætið nú bragðefninu út í og látið þeytast í 1 mín í viðbót.
- Hitið ofninn í 100°C. Látið bökunarpappír á ofnplötu. Setjið deigið í sprautupoka og sprautið litlum kökum þar á, passið að hafa bil á milli þar sem þær stækka í ofninum.
- Bakið í 1 klst og lækkið þá hitann í 90°C og klárið að baka í 1-2 klst. Slökkvið á ofninum og látið standa í 1-2 klst eða þar til pavlóvurnar hafa kólnað.
Chili - jarðaber
- 400g fersk íslensk jarðaber
- 2 msk lífrænn sítrónusafi
- 1 tsk sambal oelek eða annað gott chili
Aðferð
- Skerið jarðaberin í sneiðar og setjið í skál, hellið yfir sítrónusafa og sambal og blandið saman.
- Látið standa í 5-10 mín áður en borið fram.
Bræðið 70% lífrænt súkkulaði og berið fram með kókosrjóma ef vill. Njótið í sumarblíðunni í góðum félagsskap!