Með því að búa til gervisjúkdóma ná þykjustulæknar fram eftirtöldum markmiðum:
A) Láta skjólstæðinginn halda að þau kunni eitthvað fyrir sér með því að nota flott útlensk nöfn (Dæmi: Candidasveppir í meltingunni, Krónískur Lyme’s sjúkdómur, Wilson’s hitasjúkdómur)
B) Ná tangarhaldi á „skjólstæðingnum“ með því að hræða hann/hana upp úr skónum og láta hann halda að hann sé með hræðilegan sjúkdóm.
C) Láta „skjólstæðinginn“ halda að þeir einir geti læknað þennan hræðilega sjúkdóminn með
(fyllið í 3-10 mismunandi útgáfur af a.m.k. 400 „óhefðbundnum meðferðum“ sem þekktar eru og bætið við amk10 mismunandi bætiefnum og matarofnæmistegundum)
D) Sannfæra skjólstæðinginn um að alvörulæknar séu ónytjungar og hann/hún verði að koma til baka til þykjustulæknisins til að fá meiri töfralækningar.
Ósjaldan fá fórnarlömb þykjustulækna margar gervisjúkdómagreiningar í einu. Þegar sænska kvöldblaðið Expressen sendi nýlega út konu með falda myndavél fékk hún 60(!) mismunandi greiningar, flest gervisjúkdóma, hjá einum þykjustulækninum.
Suma var hún reyndar ekki ennþá búin að fá, smakvæmt þykjustulækninum, en var sagt að þá þurfi að hindra með ýmsum (dýrum) ráðum sem hægt var að kaupa á staðnum.
Sveppir í meltingarvegi (Candida) hefur verið einn alvinsælasti gervisjúkdómur þykjustulækna í mörg ár.
Vaktin hefur tekið skýrslu af fjölmörgum sem skýra frá heimsókn til einhvers af þykjustulæknunum og koma heim skelfingu lostnir með hræðilega (ímyndaða) Candidasveppi í maganum og poka fullan af fóðurbæti, gervimeðulum og mataræðisráðum.
Allir fá nefnilega líka ráð um að hætta að borða hitt og þetta. Þar á meðal eru nánast undantekningarlaust hveitivörur (glúteninu kennt um) og sykur og skipun um að hætta að drekka áfengi. Þar sem undantekningarlaust er um ofnotkun á flestu eða öllu þessu að ræða auk langvinnrar streitu og álags, sem lagast að sjalfsögðu tímabundið eftir hughreystingartímann hjá þykjustulækninum, þá er auðvitað gulltryggt að langflestum líður mun betur um tíma, rétt á meðan þeir endast til að halda sig frá brauðinu, kókinu og bjórnum. Allavega nógu lengi til þess að mæla með undrinu við vinina.
Nýjasti faraldurinn hefur á Íslensku hlotið nafnið NÝRNAHETTUÞREYTA. Þessi gervigreining er búin að vera afar vinsæl í útlandinu undanfarin ár og hentar sérlega vel á stressaða, vinnuþjakaða margrabarnaforeldra sem skilja ekkert í því að þau eru alveg útkeyrð. Þeim er einfaldlega sagt að nýrnahetturnar séu búnar með hormónin! Auðvitað geta (alvöru-)læknirarnir ekki greint þetta fínarí því þeir eru svo ófullkomnir og vísindin eru bara ekki enn búin að uppgötva mælingarnar sem gætu sýnt þetta. Og svo eru þeir auðvitað á mála hjá vondu stóru lyfjarisunum sem vilja ekki að fólk læknist því þá hættir það að borða lyf.
Smelltu HÉR til að lesa þessa grein til enda.