Fara í efni

Nýtt og létt ár - Hér er hugmynd að tveggja daga léttum matseðli frá Sollu á Gló

Í janúar langar marga að leggja áherslu á léttara fæði eftir allar kræsingarnar yfir hátíðarnar, en það getur verið erfitt að skipta um gír og kveðja löngun í sætindi og sukk. Þá virkar oft vel að taka fyrstu dagana með trukki.
Grænn og gómsætur
Grænn og gómsætur

Í janúar langar marga að leggja áherslu á léttara fæði eftir allar kræsingarnar yfir hátíðarnar, en það getur verið erfitt að skipta um gír og kveðja löngun í sætindi og sukk. Þá virkar oft vel að taka fyrstu dagana með trukki. 

Mér finnst gott að taka tvo daga á léttu mataræði þar sem ég fæ mér grænmetisdjúsa, sjeika, salöt og súpur. Þá ná bragðlaukarnir yfirleitt að núllstilla sig og eru tilbúnir í hollu hversdagsrútínuna aftur.

Hér er hugmynd að tveggja daga léttum matseðli.

 

 

Dagur 1
Muna að drekka nóg af vatni og góðu jurtatei yfir daginn.

Grænn djús
2 sellerístilkar
1/2 agúrka
1/2 límóna, afhýdd
2-3 cm. biti ferskt engifer
1-2 dl. vatn

Allt skorið í bita og sett í blandara. Hellt í gegnum síupoka (fæst í Ljósinu, Langholtsvegi 43) eða nælonsokk.  

Morgunsjeik
2 dl. möndlumjólk (1/2 dl. möndlur + 2 dl. vatn blandað saman og sigtað)
1 banani
2 dl. frosin bláber
1 msk. grænt duft (t.d. þurrkað hveitigras, chlorella eða hampprótein) 

Allt sett í blandara og blandað saman.

Hádegissalat
100 gr. blandað kál
10 kirsuberjatómatar
1-2 vorlaukar eða smá graslaukur
1/2 avókadó, skorið í litla bita
50 gr. spergilkál
1-2 gulrætur, skornar í bita
25 gr. valhnetur, þurrristaðar

Marinering
Blandið saman:
1/2 dl. jómfrúarólífuolía
2-3 msk. sítrónusafi
1 msk. sinnep
1 msk. tamari-sósa

Skolið og rífið/skerið kálið og setjið í skál, skerið kirsuberjatómatana í tvennt og setjið út í, sneiðið vorlaukinn í þunna skástrimla og bætið út í, skerið avókadó í bita og setjið saman við. 
Skerið spergilkál og gulrætur í passlega stóra bita og setjið í sér skál. Blandið maríneringuna og hellið yfir spergilkál og gulrætur og látið standa í 10-15 mínútur. Hellið spergilkálsblöndunni út í salatskálina og blandið öllu saman.

Millimálasnakk
Veldu eitt af eftirtöldu:
Epli
Agúrkubitar
Gulrætur
Mandarínur

Kvöldverður
Grænmetissúpa              
250 gr. rauðar linsubaunir
1.2L vatn
1 rauðlaukur, smátt saxaður
1 msk. kókosolía eða önnur olía
100 gr. hvítkál
25 gr. ferskur kóríander, smátt saxaður
1 tsk. cumin duft
1/2 tsk. kanill

Ofan á:
3 msk. ólífuolía eða kaldpressuð kókosolía
1 1/2 tsk. kóríanderfræ
2 hvítlauksrif

Skolið linsubaunirnar, setjið þær í pott með vatni og látið sjóða í um 25-35 mínútur. Mýkið laukinn á pönnu í olíunni í 3-4 mínútur, skerið hvítkálið í þunna strimla og setjið út á pönnuna með lauknum og látið mýkjast í 1-2 mínútur. Setjið hann síðan út í pottinn ásamt ferskum kóríander, cumin og kanil og látið malla í 5 mínútur. 
Hitið 3 msk. olíu á pönnu, merjið saman kóríanderfræ og hvítlauk (t.d. í mortéli eða í hvítlaukspressu) og steikið í 1-2 mínútur í olíunni og hellið út á súpuna, hrærið í og berið fram.

Dagur 2
Muna að drekka nóg af vatni og góðu jurtatei yfir daginn

Grænn djús
2 sellerístilkar
1/2 agúrka
1/2 límóna, afhýdd
2-3 cm. biti ferskt engifer
1-2 dl. vatn 

Allt skorið í bita og sett í blandara. Hellt í gegnum síupoka (fæst í Ljósinu, Langholtsvegi 43) eða nælonsokk.

Morgunsjeik
2 dl. kókosvatn
1 hnefi spínat
2 msk. goji-ber
1 msk. grænt duft (t.d. þurrkað hveitigras, chlorella eða hampprótein)
1/2 avókadó, skorið í bita

Allt sett í blandara og blandað saman. 

Hádegissalat
2 dl. soðnar kjúklingabaunir (má nota spírur í staðinn)
Örlítið af tamari-sósu
1/2 brokkólíhöfuð, skorið í lítil blóm
50 gr. ferskt spínat eða stór hnefi grænt salat
1/2 agúrka, skorin í bita
50 gr. möndlur eða heslihnetur
1 vorlaukur
Nokkrir sólþurrkaðir tómatar
10 grænar ólífur
Nokkur kapersber, ef vill
2 msk. góð kaldpressuð olía
2 msk. ferskur sítrónusafi
2 msk. ferskur appelsínusafi
Hnefi af fersku kryddi, t.d. sítrónumelissu
Örlítið sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
Tamari-sósa
Timían

Ef þið notið þurrkaðar baunir þá leggið þið þær í bleyti yfir nótt, skiptið síðan um vatn og sjóðið þær gjarnan með smá stórþarastrimli (kombu) í um 1 klukkustund eða þar til hægt er að kremja þær milli fingra sér. 
Setjið brokkólíið út í sjóðandi vatn í um 1 mínútu eða hendið því aðeins a wokpönnu með smávegis af tamari-sósu. Setjið spínat og klettasalat í skál og skerið agúrkuna í tvennt, skafið kjarnann innan úr henni með teskeið, skerið hana aftur í tvennt eftir endilöngu og síðan í um 5 cm langa bita og setjið út í salatskálina. Skerið vorlaukinn í þunnar sneiðar og setjið saman við salatið, ásamt hnetum, sólþurrkuðum tómötum, ólífum og kapersberjum. Hrærið saman sítrónusafa, appelsínusafa, sítrónumelissu, timíani og örlitlu salti og pipar og hellið yfir salatið. Tilbúið! 

Millimálasnakk
Veldu eitt af eftirtöldu:
Epli
Agúrkubitar
Gulrætur
Mandarínur

Kvöldverður
Grænmetissúpa
1 rauð paprika, skorin í tvennt, steinhreinsuð og skorin í litla bita
1/2 agúrka, skorin í litla bita
1/2 kúrbítur, skorinn í litla bita
2 vorlaukar
2 msk. steinselja
2 msk. ferskur kóríander
1 hvítlauksrif
2 cm. bútur engiferrót
Safi úr 1/2 límónu
1-2 dl. vatn (eftir því hvað þið viljið hafa súpuna þykka)
2 msk. kaldpressuð ólífuolía
1 tsk. ljóst miso eða currypaste
Smá salt eða tamari-sósa

Byrjið á að setja papriku og agúrku og smá vatn í blandara, bætið síðan einni og einni tegund af hráefnislistanum í einu út í svo að auðvelt sé fyrir blandarann að mauka grænmetið. Blandið þar til allt er orðið silkimjúkt.

Heimild: nlfi.is