Súkkulaði chia grautur
Um daginn setti ég inn uppskrift af chia súkkulaði búðingi, það þýddi að það þurfti að nota blandarann og bæta við avakadó (sem er auðvitað alveg brilliant) en hér kemur uppskrift sem er töluvert fljótlegri og tilvalin í hversagslegum morgun "hasar".
Uppskriftin er fyrir 1 og svo er bara að margfalda með fjölda fjölskyldumeðlima eða gera stóran skammt því grauturinn endist í nokkra daga í lokuðu íláti t.d. glerkrukku með loki.
Hráefni:
- 2 msk chia fræ
- 1 msk hamp fræ
- 1 tsk kakó
- 2 dl vatn eða mjólk að eigin vali.
- 1-2 dropar stevía að eigin vali (fara MJÖG varlega og alls ekki setja of mikið)
Aðferð:
Setjið allt í skál, hrærið vel og bíðið í ca. 10 mín eða búið til að kvöldi og grauturinn bíður tilbúin.
Bragðbætið með ávöxtum að eigin vali, sem er næstum því ALLTAF pera hjá mér, mér finnst bara súkkulaði og perur eiga svo dásamlega saman. Það er líka gott að setja banana en börnin mín fá svo oft illt í magann eftir að þau borða banana að ég nota þá ekki mikið.
Skreytið grautinn með ofur hollustu t.d. hnetum af öllum stærðum og gerðum og/eða þurrkuðum ávöxtum. Valhnetur eru til dæmis dásamlegt morgunfæði nú þegar skólarnir eru að byrja, stútfullar af Omega-3 fyrir heilann og minnið.
Hjá mér virkar vel að setja allt á borðið og hver blandar fyrir sig, því sumir eru með sterkar skoðanir á því hvað á að fara í skálina og hvað EKKI ;)
Borðið grautinn eins og hann kemur fyrir eða hellið út á hann mjólk af eigin vali.
heilsumamman.com