Veist þú hvað Lycopen er og hvaða áhrif það hefur á líkamann?
Á tíunda áratug síðustu aldar hófu finnskir vísindamenn rannsókn á magni Lycopens í blóði rúmlega þúsund karlmanna.
Lycopen tilheyrir flokki karotena, en þau er alfarið að finna í jurtaríkinu. Mörg karoten hafa sterkan lit. Rauða litin í tómötum, papriku, vatnsmelónum, papaja-aldin og rauðu greipaldin má rekja til lycopens. Nokkrar rannsóknir hafa bent til að neysla karotena dragi úr hættunni að fá heilablóðfall, en talsvert misræmi er á milli rannsókna. Karoten hafa sterk andoxunaráhrif sem hugsanlega getur verið heilsusamlegt og dregið úr hættunni á hjarta-og æðsjúkdómum. Finnsku vísindamönnunum lék forvitni á að vita hvort magn lycopens og nokkurra annarra karotena í blóði gæti spáð fyrir um hættuna á að fá heilablóðfall. Niðurstöður rannsóknarinnar má finna í nýjasta tölublaði vísindatímaritsins Neurology.
Rannsóknin náði til 1.301 finnskra karlmanna. Magn lycopens var mælt í blóði í upphafi rannsóknarinnar. Einnig var magn alfa-og beta karotens mælt auk magns A-vítamíns og E vítamíns, en þessi efni tilheyra flokki karotena. Mönnunum var síðan fylgt eftir í rúmlega tólf ár. Tíðni heilablóðfalla reyndist 55 prósent lægri meðal karlmanna sem höfðu hæst lycopen magn í blóði borið saman við þá sem höfðu lægstu gildin. Leiðrétt var tölfræðilega fyrir aðra áhættuþætti sem gætu haft áhrif, svo sem aldur, líkamsþyngdarstuðul, blóðþrýsting, reykingar, sykursýki og fyrri sögu um heilablóðfall. Ekki reyndist vera samband á milli tíðni heilablóðfalla og magns alfa-og beta karotens né A-vítamíns og E vítamíns.
Rannsókn sem þessi sannar ekki orsakasamband á milli lycopen magns í blóði og heilablóðfalla. Hins vegar telja höfundar rannsóknarinnar að niðurstöðurnar séu vísbending um að slíkt samband geti verið til staðar. Hugsanlegt er að andoxunareiginleikar, blóðþynnandi og bólgueyðandi áhrif lycopens geti verið verndandi fyrir æðakerfið og þannig dregið úr hættunni á heilablóðfalli. Ekki er ljóst hvaða einstaklingar höfðu hátt magns lycopens í blóði, en líklegt verður að telja að það hafi verið einstaklingar sem neyttu efnisins í ríkum mæli.
Sérfræðingar sem fjallað hafa um rannsóknina víða í fjölmiðlum í dag telja að niðurstöðurnar styrki núverandi ráðleggingar um að neyta beri grænmetis og ávaxta í ríkum mæli daglega. Þá er rétt að minna á að reykingar lækka lycopen magn í blóði, en reykingar eru mjög sterkur áhættuþáttur heilablóðfalla.
Hvað sem segja má um framkvæmd rannsóknarinnar er ljóst að tiltölulega einfalt mál er að hækka lycopen magnð í blóðinu. Borðaðu tómata, rautt greip, rauða papriku, papaya-aldin, gulrætur og aprikósur. Hver veit nema það eigi eftir að forða þér frá heilablóðfalli.
Heimild: mataraedi.is