Margrét Lára Viðarsdóttir fótboltagyðja í viðtali
Fullt nafn: Margrét Lára Viðarsdóttir
Aldur: 28 ára
Hver ert þú í stuttu máli ?
Ég er Vestmannaeyjingur í húð og hár. Mín helstu áhugamál eru íþróttir og fjölskyldan mín. Ég er með B.A gráðu í sálfræði auk þess sem ég er að klára B.S gráðu í íþróttafræðum nú í vor. Ég er atvinnumaður í knattspyrnu og spila í Svíþjóð. Ég á yndislega fjölskyldu og mann. Að auki á ég 9 mánaða gamlan son sem gerir lífið svo miklu betra.
Hvað er best við Vestmannaeyjar þaðan sem þú er upprunnin ?
Frelsið og fjölskyldan. Að auki skemmir ekki fyrir að þetta er fallegasti og friðsælasti staður veraldar að mínu mati
Hvar býrð þú núna og hvernig likar þér þar ?
Ég bý í Svíþjóð nánar tiltekið í Kristianstad. Mér og fjölskyldu minni líður ótrúlega vel hérna. Þetta er lítill og krúttlegur bær sem minnir mig oft á Vestmannaeyjar.
Hvað gerir þú þér til gamans annað en að lifa og hrærast í knattspyrnu ?
Ég er þessa dagana að skrifa B.S ritgerðina mína í íþróttafræðinni. Ég og maðurinn minn erum mjög aktív og okkur finnst gaman að fara út að hjóla, í göngutúra eða í ræktina. Þegar ég er ekki á æfingum eða sit við skrif nota ég tíman til að leika við son minn sem er það sem skemmtilegasta sem ég geri
Hvenær byrjaðir þú að æfa knattspyrnu og hafa einhverjar aðrar íþróttir freistað þín um tíðina, ef já hverjar þá ?
Ég byrjaði að æfa fótbolta um 5 ára aldur. Ég stundaði handbolta til 16 ára aldurs. Að auki stundaði ég frjálsaríþróttir og samkvæmisdansa lengi vel
Hver þjálfar þig í dag ?
Elísabet Gunnarsdóttir
Hvað æfir þú oft í viku og hversu mörgum klst. á viku eyðir þú í æfingar og keppni ?
Við æfum 7-8 sinnum í viku, 1 og hálfan klukkutíma í senn, auk þess að spila leik.
Hvað er það besta sem þú gerir eftir æfingu ?
Mér finnst ótrúlega gott að fara í heitt bað og teygja vel.
Hvernig er að koma til baka eftir að hafa átt barn ?
Það hefur komið mér á óvart hversu erfitt það er að koma til baka eftir barnsburð. Ég æfði mjög vel alla meðgönguna og tel mig vera græða á því núna. Þrátt fyrir þetta tel ég mig ennþá eiga mikið inni hvað varðar snerpu og styrk. Þetta er þolinmæðisvinna en ég hef fulla trú á að ná fullum styrk aftur
Hver er besta bók sem þú hefur lesið og ertu að lesa eitthvað núna ?
Ég er ekki að lesa neina bók núna því miður þar sem að allur minn auka tími fer í að skrifa B.S ritgerðina mína. Ég verð að viðurkenna að ég á í raun og veru enga uppáhaldsbók en ég les aðallega bara skáldssögur og ævissögur eftir merka menn og konur
Hvar sérð þú þig fyrir þér eftir 5 ár ?
Ég verð vonandi á góðum stað með manninum mínum og Emil Erni syni okkar. Vonandi verð ég farin að vinna sem íþróttasálfræðingur sem er draumurinn.
Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum ?
Sódavatn, egg og kotasælu
Hver er þinn uppáhaldsmatur ?
Mér finnst mjög erfitt að gera upp á milli Sushi og íslensku lambalæri með öllu tilheyrandi
Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú ?
Þá fer ég í Laugarspa, fer í nudd og spaið á eftir. Síðan myndi ég fara á Sushi-samba eða Fiskmarkaðinn
Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni ?
Ég passa mig alltaf á því að hugsa jákvætt og tala hvetjandi við sjálfa mig. Ég hugsa í lausnum og hef trú á því að ég geti tekist á við hvað sem er.
Ef þú værir stödd á eyðieyju hvað myndir þú ekki vilja vera án ?
Vatns, því það er grunnþörfin til að lifa.