Fara í efni

Tíu algeng grundvallarmistök í byrjun vinnudags

Fyrstu mínútur vinnudagsins geta ráðið úrlsitum um hversu mikið þér verður úr verki yfir daginn. Breska blaðið Independent telur upp tíu algeng mistök sem fólk gerir í byrjun dags, sem geta orðið til þess að allt verður í rugli frameftir degi og afköstin lítil og léleg.
Mikilægt er að byrja vinnudaginn vel.
Mikilægt er að byrja vinnudaginn vel.

Fyrstu mínútur vinnudagsins geta ráðið úrslitum um hversu mikið þér verður úr verki yfir daginn.

Breska blaðið Independent telur upp tíu algeng mistök sem fólk gerir í byrjun dags, sem geta orðið til þess að allt verður í rugli frameftir degi og afköstin lítil og léleg.

 

 

1. Ekki mæta of seint
Með því að mæta of seint í vinnuna geturðu eyðilagt vinnudaginn fyrir þér áður en hann hefst. Samkvæmt könnun, sem Huffington Post gerði nýlega grein fyrir, hafa yfirmenn einnig tilhneigingu til að álykta að þeir sem mæti seint séu ekki jafn samviskusamir og hinir, jafnvel þótt þeir seinu fari heim seinna. Vertu traustvekjandi og mættu á réttum tíma.

2. Bjóddu góðan dag
Þú getur gefið jákvæðan tón fyrir daginn og lyft sjálfum þér og öðrum upp með því að gefa þér tíma til að kasta kveðju á vinnufélagana og jafvel gefa þér nokkrar mínútur í spjall. Ekki vera hrokagikkur og leiðindaskjóða.

3. Farðu hægt í kaffidrykkjuna
Ef þú ert ekki sú manngerð sem sturtar í þig einum kaffibolla um leið og þú ert komin framúr rúminu þá eru samt yfirgnæfandi líkur á því að þú fáir þér kaffi um leið og þú kemur í vinnuna. Það er þó misráðið.

Rannsóknir benda til að heppilegst sé að drekka ekki kaffi fyrr en eftir 09:30, vegna þess að stresshormónaframleiðsla líkamans er í hámarki milli 08 og 09. Ef drukkið er kaffi á þessum tíma dags dregur líkaminn úr framleiðslu á hormóninu og líkaminn treystir þá frekar á kaffið. Þegar svo hægir enn á þessu eftir hálf tíu þá þarftu frekar á trukki frá kaffinu að halda.

4. Ekki fara beint í að svara öllum tölvupóstum
Um leið og þú sest við tölvuna er freistandi að byrja að plæga sig í gegnum alla þá tölvupósta sem borist hafa kvöldið áður. Þetta er ekki ráðlegt þar sem auðvelt er að missa sig í þessu og brenna dýrmætum tíma. Heppilegra er að renna fljótt yfir pósthólfið, athuga hvort þar liggi eitthvað áríðandi, afgreiða það og sinna rest síðar.

5. Ekki dempa þér blint í vinnuna
Farðu eftir áætlun. Athugaðu hvað er fyrirliggjandi og hvort þú þurfir að undirbúa þig sérstaklega fyrir símtöl eða fundi. Annars áttu á hættu að standa uppi ráðvilltur þegar á hólminn er komið.

6. Ekki byrja á auðveldustu verkefnunum
Samkvæmt rannsóknum á orka þín og viljastyrkur til að dofna eftir því sem líður á daginn og því er áríðandi að koma mikilvægustu verkefnunum frá eins fljótt og mögulegt er. Sumir vitna í Mark Twain og kalla þessa aðferð "að borða froskinn" með vísan til þessa sem haft hefur verið eftir rithöfundinum: "Byrjaðu daginn á því að borða lifandi frosk og þá mun ekkert verra henda þig það sem eftir lifir dags."

7. Ekki gera margt í einu

Þar sem orka þín er mikil að morgni er hætt við að þér finnist þú geta gert ótal hluti í einu. Rannsóknir sýna þó fram á að það geti komið niður á helstu verkefnum þínum að hræra í of mörgum pottum á sama tíma. Betra er að einbeita sér að einu í einu og marka stefnu dagsins með því að einblína á eitt atriði fyrstu tíu mínúturnar.

8. Burt með neikvæðar hugsanir
Ekki láta óhöpp morgunsins eða leiðindi gærdagsins ná tökum á huga þínum og trufla þig frá viðfangsefnum dagsins.

9. Ekki funda snemma
Sérfræðingar telja morgnana heppilegasta til þess að sinna verkefnum sem krefjast talsverðrar einbeitingar og skýrrar hugsunar. Þannig sé til dæmis heppilegt að sinna skriftum á morgnana. Morgunfundir séu hins vegar sóun á tíma og vitsmunum.

10. Hafðu allt í röð og reglu
Vísindamenn hafa komist að raun um að vitsmunir okkar eru takmörkuð auðlind og því verðum við að nota þá skynsamlega. Ef þú byrjar vinnudaginn á því að velta fyrir þér hvort þú eigir að byrja á því að tæma tölvupósthólfið, fá þér kaffibolla eða hvaða verkefni þú eigir að taka fyrir fyrst, er hætt við að dagurinn endi í rugli. Vertu með skýra áætlun fyrir daginn og farðu eftir henni.