Fara í efni

Á sjöunda tug í heimasóttkví - Ekki hafa greinst fleiri tilfelli mislinga

Á sjöunda tug í heimasóttkví - Ekki hafa greinst fleiri tilfelli mislinga

Á fundi sóttvarnalæknis í morgun með umdæmis- og svæðislæknum sóttvarna kom fram að ekki hafa greinst ný tilfelli mislinga en nokkrir einstaklingar hafa að lokinni bólusetningu greinst með væg einkenni mislinga sem orsakast af verkun bólusetningarinnar.

Ef ekki greinist nýtt tilfelli mislinga á landinu fyrir 26. mars eru yfirgnæfandi líkur á að mislingafaraldurinn hafi stöðvast.

Samtals 66 einstaklingar eru í heimasóttkví á landinu en eins og áður hefur komið fram er heildarfjöldi staðfestra tilfella 5 og 1 vafatilfelli. Hvert tilfelli hefur því áhrif á marga aðila í nánasta umhverfi. Í heimasóttkví felst að þeir einstaklingar sem hafa komist í tæri við sýktan einstakling skulu halda sig heima frá degi 6 eftir að þeir komust í tæri við hann og fram að 21 degi. Nánar um heimasóttkví í frétt frá 12. mars.

Dreifingu bóluefnis er að ljúka um allt land og má finna upplýsingar um framkvæmd bólusetninga á vef einstakra heilsugæslustöðva. Framkvæmd bólusetninga hefur gengið vel á landinu og ekki komið upp nein vandamál við svo vitað sé. Nánar um framkvæmd í frétt frá 15. mars.

Áfram verður fylgst með stöðu mála.

Sóttvarnalæknir