Fara í efni

Áfengisneysla ungmenna

Forvarnardagurinn haldinn í velflestum grunnskólum og framhaldsskólum landsins. Dagurinn er helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá áfengisneyslu, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu.
Forvarnardagurinn 2013
Forvarnardagurinn 2013

Áfengisneysla ungmenna

Í dag þann 9. október er Forvarnardagurinn haldinn í velflestum grunnskólum og framhaldsskólum landsins. Dagurinn er helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá áfengisneyslu, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu. Íslenskar rannsóknir sýna að þeir unglingar sem verja minnst klukkustund á dag með fjölskyldum sínum eru síður líklegir til að hefja neyslu áfengis og fíkniefna. Einnig benda niðurstöður til þess að mun ólíklegra sé að ungmenni sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf, muni hefja drykkju á ungum aldri. Í þriðja lagi sýna rannsóknirnar fram á að því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegra er að þau neyti síðar fíkniefna.

Það er eftirtektarvert að hérlendis árið 1998 höfðu 42% 9. bekkinga neytt áfengis síðustu 30 daga en í dag árið 2013 hafa einungis 5% þeirra gert slíkt hið sama. Þá má benda á að frá síðustu mánuðum í grunnskóla og þar til fyrstu mánaða í framhaldsskóla er 30% aukning á því að ungmenni hafi drukkið áfengi sl. 30 daga. Við getum breytt þessari þróun. Við höfum unnið að því markimiði með grunnskólana og nú viljum við gera hið sama hjá ungmennum í framhaldsskólum landsins.

Það er því til margs að vinna þegar unnið er skipulega að upplýsingaöflun og úrvinnslu vegna þessara þátta í lífi ungmenna. Á Forvarnardaginn eru umræðuspurningar lagðar fyrir ungmennin bæði í 9. bekk grunnskóla og á fyrsta ári í framhaldsskólum. Í grunnskólunum eru ungmennin spurð að því hvaða þætti þau vilji helst sjá þegar kemur til samveru við fjölskyldu? Langflest þeirra hafa hingað til kallað eftir því að fjölskyldan komi saman við kvöldverðarborðið og spjalli saman. Þetta er dæmi um hvernig hægt er að leita til þeirra með tillögur um hvað við fullorðna fólkið getum lagt áherslu á til að styðja þau sem best. Þessar niðurstöður meðal annarra eru lagðar til grundvallar á stefnumótunarvinnu þegar kemur til forvarna vegna áfengisneyslu ungmenna.

Framhaldsskólarnir hafa tekið þátt í Forvarnardeginum síðastliðinn 2 ár. Þau eru sem dæmi innt eftir því hvað valdi því að stökkið á milli grunnskóla og framhaldsskóla sé eins hátt (30%) eins og raun ber vitni? Þau hafa svarað því til að allt samfélagið virðist samþykkja það að þau hefji drykkju á þeim tímapunkti. Þau segja foreldrana vera afslappaðri gagnvart hugmyndinni að drekka, það sé mjög auðvelt fyrir þau að nálgast áfengi þegar komið er í framhaldsskóla og einnig að þrýstingur eldri nemenda hafi mikil áhrif á þeirra ákvarðanir. Hér er semsagt til margs að vinna og við getum stutt til þess að taka heilsusamlegar ákvarðanir eins og það að seinka því að hefja drykkju. Gildi Forvarnardagsins eru að fá ungmenni til að seinka því að hefja drykkju. Hér er ekki verið með áróður gegn áfengi almennt heldur unglingadrykkju sem þau ráða illa við.

Forvarnardagurinn er haldin að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg og Háskólann í Reykjavík. Verkefnið er stutt af Actavis.

Ég vil óska okkur til hamingju með árangurinn hingað til og er viss um það að í framtíðinni munum við sýna fram á að drykkjarmenningu unglinga er hægt að breyta eins og reyndar við höfum sýnt fram á en munum gera áfram með afgerandi hætti innan framhaldsskólanna.

Lýðheilsukveðja,

Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir formaður Félags lýðheilsufræðinga