Það hefur dregið úr nýgengi HIV á heimsvísu, það er m.a. marktæk fækkun nýgreindra í Bretlandi og stórkostlegur árangur hefur náðst í Kaliforníu og San Francisco svæðinu. Þessum góða árangri þakka menn fjölgun sjúklinga sem eru á lyfjameðferð og eru þar af leiðandi ekki smitandi og einnig má þakka PreP sem byggir á fyrirbyggjandi meðferð með lyfinu Truvada. Annar mikilvægur áhrifaþáttur í fyrirbyggjandi aðgerðum er aukið aðgengi að prófum. Undanfarin ár hafa víða verið notuð hraðpróf erlendis sem gera fólki mögulegt að vita sinn HIV status á 10 til 15 mínútum. Notkun á hraðgreiningarprófum mun spara samfélaginu mikla peninga.
Íslendingar eru með svimandi háar tölur HIV og annara kynsjúkdóma miðað við Evrópulöndin nær okkur. Mikil fjölgun hefur orðið meðal HIV nýgreindra síðustu tvö árin. Metið var slegið á síðasta ári með 27 nýsmit, í ár eru þegar greindir 24. Margir telja að það skekki myndina að þeir sem koma erlendis frá flokkist sem nýgreindir á Íslandi. Gagnrýnt hefur verið hvernig tölur og greiningar eru birtar almenningi í fjölmiðlum og að það geti alið á fordómum gegn ákveðnum hópum. Ástæður má rekja til fleiri innflytjenda, fleiri ferðamanna og Íslendingar með áður grein smit sem hafa verið búsettir erlendis. Það mætti segja að við séum í raun alltaf stödd í útlöndum, ferðumst sjálf mikið og stöðugur straumur ferðamanna hingað. Aðalmálið er og það segir sig sjálft, fólk er ekki að nota smokkinn þegar það ætti að gera það.
Við skulum ekki gleyma hvers vegna HIV jákvæðir hafa búið við ótta, mismunun, fordóma og útskúfun í gegnum árin. Eru það ekki gömlu fordómarnir gegn minnihlutahópum? og HIV-ótta Grýlan? Gæti það verið vegna þess hve dugleg við erum að skilgreina og flokka HIV jákvæða í áhættuhópa og eftir áhættuhegðun, hommana, sprautufíklana, innflytjendurna og vændisfólkið. Það er löngu tími til kominn að afglæpavæða HIV og fjarlægja óttann í öllum ríkjum heims. Við skulum leggja refsivendinum og skila skömminni. Það er ekki sanngjarnt að láta HIV jákvæða bera ábyrgð kynhegðun heillar þjóðar.
Bandaríkjamenn voru fyrstir utan vestur Evrópu til að aflétta ferðahömlum HIV jákvæðra sem enn eru viðhafðar í mörgum löndum. Það voru mjög jákvæðar breytingar í raun vendipunktur jákvæðrar þróunar í meðferð og viðhorfum til HIV jákvæðra.
Fleiri góðar fréttir komu frá Bandaríkjunum þegar Kalifornía tók stórt skref síðastliðið haust með afglæpavæðingu HIV. Mörg ríki með gamaldags og fáránlega löggjöf yfir HIV mættu taka sér þetta til eftirbreytni. Við getum þakkað öflugu samfélagi aðgerðarsinna og samkynhneigðra í San Francisco. Þetta er skref sem gleður mig mikið persónulega að því leyti að maður sér möguleika á að HIV smitaðir verði að lokum meðhöndlaðir eins og annað fólk.
Aftengja ber sérstaka smitsjúkdóma og refsilöggjöf yfir HIV sem viðgengst enn í mörgum ríkjum heims. Því er hægt líkja við að hafa lög sem refsa öllum sem geta smitað aðra af sjúkdómum, berkla, lifrarbólgu og fleiri lífshættulega sjúkdóma? Refsilöggjöf sem er þannig uppbyggð að margir sem eru með sjúkdómaen þora ekki að segja ekki frá þeim vegna ótta við refsingu. Við ættum ekki að temja okkur að tala um kæruleysi og lauslæti í sambandi við kynsjúkdóma vegna þess að það viðheldur skömminni og óttanum. Hvað ef umræðan snerist í ríkara mæli um að þykja vænt um sjálfan sig. Ég er viss um að ef við myndum aflétta leynd, feluleik, stigma og hentum refsivendinum þá myndum við ná betur til allra.
Gott aðgengi að prófum er lykillinn að viðurkenningu á því að sjúkdómarnir eru til staðar og eru jafnframt verkfæri til að stemma stigu við HIV. Það er nauðsynlegt að geta komist í hraðgreiningarpróf á óháðum stað í borginni. Hraðgreiningarprófin gera skimanir auðveldari í öllu samfélaginu, ekki bara meðal lykilhópa. Greiningarstöðvar sem þessar gerir fólk ábyrgara og því líður eins og það hafi val. Þessi kostur virkar hvetjandi á fólk til að mæta reglubundið í skoðun.
Aðgengi og fræðsla fyrir alla er númer eitt, tvö og þrjú. Við ættum að flokka og skilgreina minna og láta okkur þykja vænt um okkur sjálf eins og við erum, hugsa vel um okkur og heilsuna. Fræðsla og opinská umræða er afar brýn fyrir alla hópa og okkur ber að stuðla að henni, upplýsa og fræða án umvandana og ótta.
HIV jákvæðir á lyfjum smita ekki.
Einar Þór Jónsson
Lýðheilsufræðingur/framkvæmdastjóri
HIV Ísland