Á mynd 1 má sjá árlegan fjölda þeirra sem greinst hafa með lekanda á Íslandi eftir kyni frá 1997–30. nóvember 2016. Á mynd 2 má sjá árlegan fjölda þeirra sem greinst hafa með HIV-sýkingu á Íslandi eftir kyni frá 1997–30. nóvember 2016.
Á síðastliðnum áratugum hefur orðið aukning í sárasótt hér á landi en mynd 3 sýnir árlegan fjölda þeirra sem greinst hafa með sárasótt á Íslandi eftir kyni frá 2011–30. nóvember 2016. Sama þróun hefur átt sér stað erlendis sem hefur að miklu leyti verið rakin til karla sem stunda kynlíf með körlum. En þessar sýkingar eru ekki einungis afmarkaðar við þann hóp því smitið berst líka út á meðal gagnkynhneigðra í samfélaginu.
Þessi aukning í kynsjúkdómum á Íslandi er því ekki með öllu óvænt því hún er í samræmi við það sem hefur sést erlendis. Kynsjúkdómar virða ekki landamæri, þeir berast hingað með Íslendingum sem smitast í útlöndum og ná síðan að breiðast út. Erlendir ferðamenn geta líka borið smit með sér hingað til lands en ítreka skal að þeir geta einnig smitast eftir komu til Íslands. Uppruni smits er því bæði af innlendum og erlendum toga.
Aukning í HIV-sýkingum á þessu ári eru af ýmsum toga. Smit á sér stað bæði meðal sprautufíkla og við kynmök. Á þessu ári greindust auk þess sex einstaklingar með alnæmi sem bendir til þess að þeir hafi smitast fyrir mörgum árum. Smitleiðir HIV eru því bæði fleiri og tímasetning smits nær yfir lengri tíma borið saman við sárasótt og lekanda.
Leitað hefur verið skýringa á þessari óvæntu aukningu í kynsjúkdómum víða um heim. Hugsanleg skýring er að dregið hefur úr ótta við HIV-sýkingu, því öflug meðferð sem heldur sjúkdómnum í skefjum, eykur mjög bæði lífslíkur og lífsgæði smitaðra einstaklinga. Sú óttaminnkun endurspeglast hugsanlega bæði í hömlulausara kynlífi og minni smokkanotkun.
Fjölónæmur lekandi sem getur verið erfiður að meðhöndla, hefur greinst í vaxandi mæli erlendis. Fjölónæmir stofnar hafa ekki enn náð útbreiðslu á Íslandi þó stök tilfelli hafi greinst fyrir nokkrum árum. Það er þó ekki með fullu hægt að útiloka að einhverjir í samfélaginu beri fjölónæma lekandabakteríu á Íslandi, því við greiningu á lekanda er sýklalyfjanæmi ekki alltaf rannsakað. Það skal þó ítrekað að fjölónæmar lekandabakteríur geta auðveldlega borist til landsins með einstaklingum sem smitast á ferðalögum sínum erlendis.
Sóttvarnalæknir vill hvetja alla til öruggs og ábyrgs kynlífs og minnir enn og aftur á að besta forvörnin gegn kynsjúkdómum fæst með notkun smokka.
Sóttvarnalæknir