Fara í efni

Batasetur Suðurlands opnað á Selfossi

Síðastliðinn föstudag var Batasetur Suðurlands opnað að Skólavöllum 1 á Selfossi. Batasetrið er virknimiðstöð fyrir fólk með geðraskanir á aldrinum 18 ára og eldri og fjölskyldur þeirra.
Batasetur Suðurlands opnað á Selfossi

Síðastliðinn föstudag var Batasetur Suðurlands opnað að Skólavöllum 1 á Selfossi.

Batasetrið er virknimiðstöð fyrir fólk með geðraskanir á aldrinum 18 ára og eldri og fjölskyldur þeirra.

 

Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir iðjuþjálfi hefur umsjón með Batasetrinu sem verður opið á föstudögum. Jóna Heiðdís vann m.a. hjá Hugarafli, félagasamtökum fólks með geðraskanir, þar sem hún vann með þessa hugmyndafræði um batamódel og valdeflandi stuðning sem byggir á aukinni þátttöku í samfélaginu og bata.

Góður stuðningur hjá Batasetrinu
„Þetta er í rauninni gert þannig að fólk geti komið saman og unnið í sínum bata með valdeflandi stuðningi þannig að það nái stjórn á sínu eign lífi og geti jafnvel hjálpað öðrum. Markmiðið með Batasetri er að stjórntaumarnirst séu í höndum einstaklingsins sjálfs. Það er enginn annar sem segir hvað þú átt að gera heldur finnur þú það hjá sjálfum þér, en þú getur fengið góðan stuðning til þess í Batasetrinu. Það er hægt að ná bata þó það sé ekki endilega verið að meina að fólk hætti á lyfjum og öllu mögulegu svoleiðis. Þá er verið að meina að fólk nái að vera í jafnvægi og geti gert það sem það langar til,“ sagði Jóna Heiðdís.

Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir, Iðjuþjálfi hjá Batasetri Suðurlands

Markviss verkefnavinna
Batasetrið er í sama húsnæði og Strókur, að Skólavöllum 1 á Selfossi, og var Jóna Heiðdís spurð hvort starfsemin tengdist eitthvað.
„Við þjónum í rauninni svipuðum hópi og Strókur þó að það sé gjörólík nálgun. Á mánudögum til fimmtudögum hittist fólk hérna á vegum Stróks, spjallar og fær mat og kaffi og sinnir handavinnu og þess háttar sem að hentar mörgum. En hjá Batasetri verður meira markviss verkefnavinna í átt að bata.“

Þarf ekki greiningu eða tilvísun
„Þjónustan hjá Batasetri Suðurlands er fyrir alla og er ókeypis. Ekki þarf greiningu eða tilvísun til að koma, heldur getur fólk komið til að spjalla eða bara til að gera hvað sem er á meðan það er tilbúið til að taka þátt og vill nýta tækifærið til að vinna að bata sínum. Við fengum styrk frá SASS en höfum í rauninni ekki fengið neitt annað. Við fáum að vera hérna á föstudögum endurgjaldslaust. Þetta er prufuverkefni og við ætlum að sjá hvernig þetta gengur fyrsta árið. Síðan verður að koma í ljós hvort við getum fært út kvíarnar eða hvernig þetta verður,“ sagði Jóna Heiðdís.

Viðtal fengið af síðu dfs.is - viðtal og ljósmynd tók Örn Guðnason ritstjóri Dagskrárinnar og DFS.IS