Þær Arney og Hrafnhildur hafa starfrækt fyrirtæki sitt, Björkin ljósmæður, allt frá árinu 2009 en megin þjónusta þeirra felst í aðstoð við heimafæðingar í Reykjavík og nágrenni við höfuðborgina. Þá bjóða þær einnig upp á mæðraskoðun á meðgöngu, heimaþjónustu fyrstu dagana í lífi barnsins, fræðslufyrirlestra fyrir verðandi foreldra og nálastungumeðferð fyrir verðandi mæður.
„Náttúruleg fæðing í heimilislegu umhverfi er mikilvægur valkostur og okkur finnst vöntun á fæðingarstofu sem þessari og það finnst konum líka,” segir Arney og bendir jafnframt á að með hagræðingu á Landspítalanum hafi lagst af sú þjónusta sem Hreiðrið bauð upp á, þar með fækkað valkostum fæðandi kvenna. „Við horfum þannig til fæðingarheimila í nágrannalöndum okkar og styðjumst mjög við leiðbeiningar um fæðingarhjálp og mæðraskoðun á meðgöngu frá Bretlandi, en þarlendir sérfræðingar mæla t.a.m. með því að hraustar konur sem upplifa áfallalausa meðgöngu og þá sérstaklega þær konur sem hafa fætt eðlilega áður, fæði utan spítala með aðstoð ljósmóður annað hvort á fæðingarheimili eða heima hjá sér.”
Á einungis fimm árum hafa ljósmæðurnar tvær aðstoðað við yfir 200 heimafæðingar gegnum þá þjónustu sem Björkin veitir. Þær vilja nú færa út kvíarnar með því að bjóða upp á fæðingarstofu svo enn fleiri fjölskyldum verði gert kleift að njóta fæðingar barns í hlýlegu umhverfi sem ber meiri keim af heimili en spítala, í návist ljósmóður sem foreldrar þekkja og treysta.
Arney segir þjónustuna skorta á Íslandi í dag og að mikil þörf sé á aðstöðu fyrir þær mæður sem séu hraustar á meðgöngu og kjósi náttúrulega fæðingu utan spítala. „Það er kominn tími til að láta þetta verða að veruleika og að geta boðið verðandi foreldrum upp á þennan valkost, þeim nær að kostnaðarlausu. Pabbarnir borga örlítið gjald fyrir dvölina í dag á spítalanum og við komum einnig til með að innheimta lágt aðstöðugjald, en sjúkratryggingarnar munu greiða fyrir þjónustu okkar eins og raunin er með heimafæðingar í dag. Þetta á að vera þannig að allir geti valið kostinn algjörlega óháð fjárhag.” ...LESA MEIRA