Fara í efni

Ebólufaraldurinn í Vestur-Afríku - Nýjar ráðleggingar til ferðamanna

Enn er aukning á fjölda ebólutilfella í Vestur-Afríku og hefur sýkingin nú einnig greinst í Nígeríu. Rúmlega 1700 einstaklingar hafa nú verið greindir með sýkinguna og rúmlega 900 látist.
Ráðleggingar til ferðamanna
Ráðleggingar til ferðamanna

Enn er aukning á fjölda ebólutilfella í Vestur-Afríku og hefur sýkingin nú einnig greinst í Nígeríu. Rúmlega 1700 einstaklingar hafa nú verið greindir með sýkinguna og rúmlega 900 látist.

Ebóla er nú einnig farin að berast til annarra landa sem er einkum vegna flutninga sjúklinga frá Vestur-Afríku til síns heima.

Þótt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafi ekki lýst yfir ferðabanni til Gíneu, Sierra Leone, Líberíu eða Nígeríu mælist sóttvarnalæknir til þess í samráði við Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins að ekki sé ferðast til þessara landa nema að brýna nauðsyn beri til. Búast má við að ferðamenn geti orðið fyrir röskun af ýmsum toga vegna neyðarástands sem gildir í þessum ríkjum.

Sóttvarnalæknir vill leggja áherslu á að:

  • Sjúkdómurinn smitast einungis við nána snertingu við veika eða látna einstaklinga en ekki með andardrætti. Einnig geta villt dýr borið veikina og smitað menn. Smit verður við snertingu við líkamsvessa eins og blóð, svita, munnvatn og þvag. Einnig getur smit orðið við óvarin kynmök og við neyslu á hráu og illa elduðum villtum dýrum eða svokölluðu „bush meat".
  • Líkur á smiti í löndum þar sem sjúkdómurinn geisar er einkum á afskekktum svæðum þar sem umgengni við veika og látna er ábótavant en líkur á smiti eru litlar á almenningsstöðum í stórborgum.
  • Veiran lifir stutt utan líkamans og þolir illa venjulegan þvott með sápu, sótthreinsandi efni, þurrk eða sólarljós. Þess vegna smitast veiran ekki á milli manna með t.d. peningum, umbúðum eða í sundlaugum.
  • Frá smiti þar til einkenna verður vart geta liðið allt að 21 dagur og eru einstaklingar á þessum tíma ekki smitandi. Einungis veikir einstaklingar smita.

Sóttvarnalæknir telur ólíklegt að ebóla muni berast til Íslands. Verið er að virkja viðbragsáætlanir innanlands ef svo ólíklega vildi til að hingað kæmu einstaklingar með sjúkdóminn.

Sóttvarnalæknir hvetur alla sem eru á ferðalögum í ofangreindum löndum til að:

  • Forðast náin samskipti við veika eða látna einstaklinga, veik eða látin villt dýr og að forðast neyslu á illa elduðum mat, einkum á villtum dýrum.
  • Gæta vel að hreinlæti, þ.e. handþvotti með sápu og jafnvel hreinsun með handspritti.
  • Stunda ekki óvarið kynlíf.

Sjá einnig fréttir á vef Embættis landlæknis þann 30.7.2014 og 7.8.2014.

Heimild: landlaeknir.is