Að undanförnu hefur mikil umræða átt sér stað um ástæður þess að svona er komið fyrir mörgum. Sitt sýnist hverjum en flestum ber saman um að ábyrgðin sé hjá neytendum, stjórnvöldum og fyrirtækjum sem framleiða og markaðssetja matvæli. Ég hef tekið eftir því í starfi mínu sem næringarfræðingur, en ég held fjölda fyrirlestra og veiti einnig einstaklingsráðgjöf, að hávær krafa er að mótast hjá almenningi um að fyrirtæki sem framleiða og markaðssetja matvæli axli ábyrgð á neyslumynstri Íslendinga og aðstoði neytendur við að velja matvæli við hæfi og sem henta t.d. ákveðnum aldurshópum.
Í þínum verslunum eru seldir orkudrykkir. Orkudrykkir eru t.d. Red Bull, Euroshopper Energy Drink, Monster, Burn, Magic, Orka, Cult ofl. ofl. tegundir. Oftast eru þessir drykkir í 250 ml umbúðum en æ algengara er að finna 500 ml dósir og flöskur og nú síðast bættust við 1000 ml dósir, en þá stærð er ekki endilega að finna í þínum verslunum. Orkudrykkir þessir innihalda umtalsvert magn af koffíni en auk þess er í flestum þeirra mikið magn af viðbættum sykri.
Aukaverkanir vegna koffínneyslu eru margvíslegar. Efnið er örvandi og eykur því hjartslátt og blóðþrýsting en aðrar þekktar aukaverkanir eru breytingar í hegðun s.s. óróleiki, skapstyggð, einbeitingarleysi og ógleði. Mikilvægt er að muna að áhrif koffíns á smærri líkama eru meiri en á stærri líkama og eru áhrif efnisins oftast mæld á hvert kg. líkamsþyngdar. Börn eru því sérstaklega viðkvæm gagnvart koffíni. Auk þess er taugakerfi barna ekki fullþroskað og geta áhrifin því orðið verulega neikvæð sé koffíns neytt.
Ekki þarf skv. reglum um merkingar að merkja orkudrykki að öðru leyti en kveðið er á um í almennum reglum um merkingar að því undanskyldu að þegar magn koffíns er meira en 150 mg í 1000 ml af drykk þá er skylda að merkja að varan innihaldi mikið magn af koffíni.
Mikilvægt er að hafa í huga að börn eru hópur einstaklinga sem þarfnast sérstakrar athygli og ummönnunar umfram fullorðna. Til dæmis er kveðið á um í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að börn séu ekki sett í aðstöðu og aðstæður sem ekki eru til hæfis þeirra aldri. Barnasáttmálinn tilgreinir einnig orðrétt:
„.....að börn séu hópur sem þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu."
Á Íslandi telst einstaklingur vera barn þar til hann nær 18 ára aldri en þá öðlast einstaklingur flest þau réttindi og ber allar þær skyldur sem fullorðinn hefur.
Nokkrar matvælaverslanir hafa tekið upp á því að merkja staði þar sem orkudrykkir eru til sýnis og sölu með varnaðarorðum um að þessara drykkja skuli ekki neyta sé einstaklingurinn yngri en 15 ára. Mikilvægt er að það sé ekki gerður greinarmunur á 15 ára einstaklingi annars vegar og 14 ára einstaklingi hinsvegar; báðir eru einstaklingarnir börn skv. íslenskum lögum.
Bréf þetta er skrifað til þín í þeirri von að þú hjálpir íslenskum neytendum að velja vöru sem hentar hverjum og einum og þá sérstaklega þegar um er að ræða viðkvæma hópa. Börnin okkar tilheyra viðkvæmum hópi og ég yrði afar þakklátur, sem foreldri tveggja barna, ef þú sæir þér fært að merkja alla þá staði í öllum þínum verslunum þar sem orkudrykkir eru seldir.
Staðsetninguna þar sem orkudrykkir eru seldir mætti merkja með eftirfarandi leiðbeinandi orðum:
"Ekki er æskilegt að börn yngri en 18 ára neyti orkudrykkja."
Oft er það þannig að hvorki foreldrar né börn vita að orkudrykkir eru ekki æskilegir þegar kemur að neyslu barna yngri en 18 ára en áhrif frá koffíni eru oftast meiri og öflugri þegar börn neyta þeirra en þegar þessara drykkja er neytt af fullorðnum. Því er mikilvægt að skilaboðin til allra séu skýr.
Evrópusambandið hefur gefið út að ekki sé æskilegt að orkudrykkja eða annarra drykkja með miklu magni af koffíni sé neytt af börnum. Matvælastofnun tekur undir þau orð.
Ég vona að þú takir vel í bón mína.
Með virðingu og von um skjót og jákvæð viðbrögð,
Steinar B. Aðalbjörnsson
foreldri og næringarfræðingur
858-5111, naering@hotmail.com
P.s.: ég hef nú þegar fengið svör frá nokkrum framkvæmdastjórum og hafa viðbrögð þeirra verið mjög jákvæð. Vonandi fylgja breytingar í kjölfarið enda trúi ég því að þetta sé af hinu góða, líka fyrir fyrirtækin sjálf.
Þessi pistill er eign höfundar og má hvorki afrita hann né nota efni hans án leyfis.