Fara í efni

Er íþróttafræðimenntun nú til dags bara grín og réttindin fengin úr Cheeriospakka?

Sem „gömlum" íþróttakennara hefur mér þótt verulega sárt að sjá hvernig starfsstétt íþróttafræðinga og íþróttakennara hefur dottið út úr samfélagslegri umræðu síðastliðin 20 ár. Þegar ég útskrifaðist frá Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni árið 1992 þótti íþróttakennari nokkuð merkilegur titill. Í dag má þakka fyrir að íþróttakennarar og íþróttafræðingar fá vinnu á heilsuræktarstöðvum landsins, ja a.m.k. sumum þeirra.
Þjálfari að störfum
Þjálfari að störfum

En af hverju spyr ég hvort íþróttafræðimenntun sé grín? Það er ekki vegna þess að mér þyki hún ekki mikilvæg eða merkileg. Háskólanám í íþróttafræðum er sex anna eða þriggja ára 180 eininga háskólanám. Námið byggir m.a. á líffærafræði, lífeðlisfræði, hreyfiþroska, næringarfræði, þjálffræði, íþróttasálfræði, uppeldis- og kennslufræði, forvörnum íþróttameiðsla, líkams- og heilsurækt, einkaþjálfun, heilsufræði, heilsuþjálfun almennings, afreksþjálfun, sérkennslu, rannsóknum og mælingum auk íþróttagreinanna. Til samanburðar má geta þess að ÍAK einkaþjálfaranám hjá Keili í Reykjanesbæ er tveggja anna námskeið sem kennt er að mestu í fjarnámi og er metið til 36 eininga á framhaldskólastigi. Einkaþjálfaranámskeið hvort heldur ÍAK, ACE, FÍA eða önnur námskeið eru ekki metin inn í háskólanám.

Ég spyr hvort íþróttafræðimenntunin sé grín eingöngu vegna þess að undanfarna mánuði hef ég heyrt ótrúlegar sögur sem nauðsynlegt er að reifa hér ekki hvað síst til þess að vernda hagsmuni neytenda en auk þess að verja heiður íþróttakennara og íþróttafræðinga.

Hvernig stendur á því, þrátt fyrir ofangreinda menntun íþróttafræðinga, sem útskrifast frá bæði Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík ár hvert, að almenningur sé að ruglast á íþróttafræðingi og einkaþjálfara? Til þess að því sé haldið til haga verður að nefna að íþróttafræðingur er lögverndað heiti en einkaþjálfari ekki. Einkaþjálfari getur hver sem er kallað sig sama hver bakgrunnur og menntun þess einstaklings er. Gildir þá einu hvort ekkert námskeið hefur verið sótt, einkaþjálfaranámið standi yfir eina helgi eða það standi yfir tvær annir eins og hjá Keili.

Ég tel að það séu nokkrar ástæður fyrir þessum ruglingi og fyrir því að almenningur viti ekki hvað íþróttafræðingar geta og kunna. Ein af tveimur megin ástæðunum er sú að stéttin hefur haft sig lítið í frammi og leyft umræðu um hreyfingu og heilsu að fara fram t.d. í fjölmiðlum án þess að koma þar að og í raun „leyft" misvitri umræðu að eiga sér stað án leiðréttinga. Síðari megin ástæðan að mínu mati er sú að umræðan um hreyfingu og heilsurækt er farin að standa og falla með því hvernig einkaþjálfarar, misvitrir eins og gengur og gerist, líta á hin ýmsu heilsutengd mál. Nú þarf það að koma skýrt fram að ég hef ekki nokkurn skapaðan hlut á móti einkaþjálfurum. Ég þekki þá mjög marga og margir þeirra eru miklir fagmenn sem setja ekki árangur viðskiptavina sinna né hégóma sinn ofar heilsu viðskiptavinarins.

En það mál ljóst vera að einkaþjálfari er ekki íþróttafræðingur en íþróttafræðingur getur auðveldlega verið einkaþjálfari og hefur til þess nægilega menntun og rúmlega það.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir þá geta íþróttafræðingar ekki fengið vinnu hjá Reebok Fitness í Holtagörðum. Jú reyndar geta þeir það en eingöngu ef þeir eru auk þess með ÍAK einkaþjálfarapróf frá Heilsuskólanum hjá Keili í Reykjanesbæ. Hvernig getur líkams- og heilsuræktarmiðstöð eins og Reebok Fitness talið að einkaþjálfaranám frá Keili sé betra en nám í íþróttafræðum frá tveimur af öflugustu háskólum landsins? Ég hef lesið það sem stjórnendur einkaþjálfaranámsins hjá Keili segja um námið en því miður neyðast þeir til að skilja að ÍAK einkaþjálfaranám kemst ekki með tærnar þar sem háskólanám í íþróttafræðum er með hælana.

Miðað við ofangreindar staðreyndir, hvernig geta þeir í Reebok Fitness neitað íþróttafræðingi um vinnu bara vegna þess að hann er ekki með ÍAK einkaþjálfararéttindi og sagt að þeir ráði bara inn einkaþjálfara með ÍAK réttindi? Eru hagsmunir sértækra hópa settir ofar hagsmunum almennings sem kaupir sér kort í Reebok Fitness? Nei, ég veit ekki enda eru þetta bara mínar eigin tilgátur af hverju íþróttafræðingum hefur verið neitað um vinnu hjá þeim.

Ég er ekki að segja að íþróttafræðingurinn sé alltaf betri einkaþjálfari en sá sem er eingöngu með einkaþjálfararéttindi en það má ljóst vera að íþróttafræðingurinn hefur mun meiri þekkingu á mun fleiri sviðum en einstaklingar sem hafa klárað einkaþjálfaranám hvort sem það er nú helgarnámskeið eða tveggja annað nám eins og hjá Keili.

Hreyfiseðlar heilsugæslunnar
Nokkrar heilsugæslustöðvar eru að prófa sig áfram með svokallaða hreyfiseðla. Hreyfiseðlarnir ganga út á að læknar geti skrifað upp á hreyfingu í stað lyfja eða samhliða lyfjagjöf. Eftir því sem ég best veit þá gengur þetta vel þar sem það er í prófun og almenn ánægja með þessa leið í forvörnum og heilsueflingu landsmanna. En á sama tíma og ég fagna þessu þá spyr ég af hverju það eru eingöngu sjúkraþjálfarar sem geti tekið á móti einstaklingum sem fengið hafa uppáskrifaða hreyfingu frá lækni? Reyndar átti ég samtal við lækni einn í Heilsugæslustöðinni í Garðabæ og sagði hann mér að um tilraun væri að ræða og ekki væri loku fyrir það skotið að inn í þetta kæmu íþróttafræðingar og aðrir fagmenn þegar fram líða stundir og þegar og ef ákveðið verður að innleiða þessa leið varanlega inn í heilbrigðiskerfið.

Eftir sem áður tel ég það umhugsunarvert, þá ekki hvað síst fyrir starfstétt íþróttafræðinga og íþróttakennara í heild sinni, hvernig gengið hefur verið fram hjá þeim fagaðilum sem líklegast eru hvað best til fallnir að sinna þeim einstaklingum sem fengið hafa hreyfiseðlana uppáskrifaða.

Steinar B.,
næringarfræðingur
www.steinarb.net

Þessi pistill er eign höfundar og má hvorki afrita hann né nota efni hans án leyfis.