Fara í efni

Er súrdeigsbrauð hollara en önnur brauð ? Viðtal á Ruv við Fríðu Rún næringafræðing Heilsutorgs

Er súrdeigsbrauð hollara en önnur brauð ? Viðtal á Ruv við Fríðu Rún næringafræðing Heilsutorgs

Við fáum talsvert af spurningum um hollustu og mataræði frá hlustendum Mannlega þáttarins. Þetta eru oft spurningar sem manni finnst maður eigi að vita svarið við, en er samt ekki alveg viss og svo eru alltaf að koma ný sannindi.

Því töluðum við við Fríðu Rún Þórðardóttur næringafræðing hjá Heilsutorgi og Landspítalanum til þess að koma með réttu svörin.

Hvaða olíur á maður að nota hvenær og í hvaða magni?

Fríða talar um að ráðlegging landlæknisembættisins mæli með því að nota olíur frekar en smjör almennt við matargerð, til að t.d. steikja upp úr, nota smjörið meira til hátíðarbrigða. Ólífuolían er algengust, en einnig repjuolía, en svo hefur fólk verið að prófa sig áfram með aðrar olíur, eins og sesamolíu. Aðalmálið er þó að passa uppá að hita olíuna ekki of mikið, að hún byrji að brenna. Eins mælir Fríða með því að nota olíur á saladið frekar en tilbúnar dressingar.

Hvernig aukum við hollustu fitunnar í fæðu okkar?

Það gerum við til dæmis með því að velja frekar feitan fisk, lax, bleikju eða lúðu og jafnvel síld. Eins er það lárperan eða avókadó, til dæmis ofan á brauð og síðast en ekki síst hnetur og möndlur og muna að taka lýsi.  Með því að velja þessar fæðutegundir inná matseðilinn þá nær maður að bæta gæði fitunnar, sem er svo gríðarlega mikilvægt.

Eins skiptir miklu máli í umræðunni um fitu að þegar við erum að taka fitu úr matnum, gera hann fitusnauðan, þá skiptir miklu máli hvað kemur í staðinn. Til dæmis er ekki af hinu góða að setja sykur í staðinn fyrir fitu, eins og t.d. í bakstri.

Er súrdeigsbrauð hollara en önnur brauð?

Varðandi súrdeigsbrauðið, þá fer það eftir vinnsluaðferðinni, hvernig brauðið er gert.  Auðvitað er það af hinu góða að hafa fjölbreytileika í brauðum, sumum getur t.d. fundist súrdeigsbrauð fara betur í maga og þá er það bara gott mál. En það sem skiptir máli þegar við erum að skoða brauð er að það sé mikið magn af heilkornum, fræjum og lítið unnu korni, sem brauðið er samsett úr. Embætti landlæknis ráðleggur og reynir að stuðla að því að trefjaneyslan okkar sé u.þ.b. 25 grömm á dag.

Er kaffi hollt? Hversu margir bollar?

Mannskepnan hefur drukkið kaffi í gegnum aldirnar og er það mest notaða örvandi efni í heiminum í dag. Það er yfirleitt talað um 2-3 bolla á dag í viðmiðum, en þá kemur auðvitað upp spurningin hvað er einn bolli stór? Og svo skiptir máli hvað er sett út í kaffið. Er það síróp, rjómi, nýmjólk, eða eitthvað annað.  Þetta getur auðvitað haft áhrif á heildar kaloríuinntöku fólks, sérstaklega í miklu magni.

Varar við neyslu orkudrykkja.

Fríða vildi að lokum koma því á framfæri að það sé ekki góð þróun í neyslu orkudrykkja hér á landi.  Hún segir að heilbrigðisstarfsfólk hafi talsverðar áhyggjur af því magni sem sumir einstaklingar eru að innbyrða af orkudrykkjum. Svo ekki sé talað um ef börn eða unglingar eru að drekka þessa orkudrykki, það sé mjög alvarlegt því þessir drykkir eru alls ekki gerðir fyrir börn.

HLUSTA Á VIÐTAL HÉR.