Fara í efni

Faraldsroði - Fimmti barnasjúkdómurinn

Hvað er faraldsroði?
Veikindi barna getur verið erfitt að eiga við
Veikindi barna getur verið erfitt að eiga við

Hvað er faraldsroði?

Faraldsroði er smitandi veirusjúkdómur sem er algengastur hjá 5-15 ára börnum. Fólk á öllum aldri getur þó fengið sjúkdóminn. Foreldrar ungra barna og aðrir sem eru mikið í návist barna eru þó líklegri til þess að sýkjast.

Einkenni sjúkdómsins eru rauð útbrot á kinnum. Oft er talað um að fólk sé svo rjótt í kinnum eða að það sé eins og það hafi verið slegið utan undir. Engin lækning er til við þessum sjúkdómi en hann er hvorki hættulegur né langvarandi. Faraldsroði er einnig nefndur fimmti sjúkdómurinn (og er þá átt við barnasjúkdóma). Áður fyrr var talað um skarlatssótt sem fyrsta sjúkdóminn, mislingar annar sjúkdóminn og rauðir hundar þriðji sjúkdóminn. Fjórði sjúkdómurinn er ekki lengur til.

Hver er orsökin?

Sjúkdómsvaldurinn er veira sem nefnist parvóveira B19. Veiran smitast á milli fólks með úða frá nefi og kverkum við hósta eða hnerra (úðasmit). Líkaminn myndar lífstíðar mótefni gegn sjúkdómnum, þ.e. hver einstaklingur fær sjúkdóminn aðeins einu sinni.Fimm prósent líkur er á því að þungaðar konur sem fá faraldsroða smiti fóstrið.

Ef fóstrið smitast getur það leitt til blóðskorts sem stundum má meðhöndla með blóðgjöf en getur leitt til fósturláts. Líkur á fósturláti eru þó mjög litlar.Það geta liðið 1-3 vikur frá því að einstaklingur smitast þar til einkenni koma fram. Smithætta er í viku áður en einkennin eru komin fram í smituðum sjúklingi. · 

Hver eru einkennin?

·   Viku áður en sjúkdómurinn brýst út getur flensueinkenna orðið vart, þ.e. hita, þreytu, höfuðverks, beinverkja.

·   Útbrot, sem byrja í andlitinu. Eftir nokkra daga breiðast útbrotin á búkinn og útlimi.

·   Kláði.

·   Verkir eða bólgur í liðum, algengara hjá fullorðnum en börnum, þó sérstaklega hjá konum.

Stundum er fólk einkennalaust en getur samt verið smitberar. Sjúkdómseinkennin eru væg og yfirleitt er engin hætta á ferðum. Útbrotin geta komið aftur á næstu vikum, meðal annars ef einstaklingurinn er undir álagi. Verkir og bólgur í liðum hverfa með tímanum en geta varað lengur en sjúkdómurinn. Faraldsroði getur auk þess valdið tímabundnu blóðleysi.

Hverjir eru í áhættuhóp?

·      Þungaðar konur sem ekki hafa fengið faraldsroða.
·      Einstaklingar með lélegt ónæmiskerfi.
·      Einstaklingar með vissar tegundir blóðleysis. · 

Ráðleggingar

·        Svalt umhverfi eða kaldir bakstar geta linað kláðann.
·        Þunguðum konum sem grunar að þær séu smitaðar er ráðlagt að hafa samband við lækni. 

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

·        Hægt er að taka blóðsýni og segja til um hvort viðkomandi sé með sjúkdóminn eða hvort hann hafi fengið hann fyrir löngu síðan. Sjúkrasagan skiptir einnig máli.

Hver er meðferðin?

Það er engin sérstök meðferð til.

Þórólfur Guðnason, barnalæknir