Börnin okkar eru framtíðin og eiga þau skilið sem besta næringu til að vaxa og dafna. Því miður er þó nokkuð af þeim mat, sem börnum er boðið uppá, gervimatur án góðrar eða nægilegrar næringar fyrir þau. Sjaldan á æviskeiðinu er góð næring jafn mikilvæg og á uppvaxtarárunum þegar líkaminn er að vaxa á ógnarhraða og hreyfing mjög mikil. Börn hafa þörf fyrir mun meiri hreyfingu en fullorðnir og eru einnig á fullu í allskyns íþróttum. Það er því ekki nóg að maturinn sem börnin neyta, gefi eingöngu magafylli hann verður líka að innihalda nauðsynleg orkuefni, vítamín og steinefni.
Aldrei myndum við láta matarolíu á bensínbílinn okkar en hví gefum við börnunum okkar sem við elskum svo mikið mat sem er síður en svo gott „eldsneyti” fyrir þau?
Hér fyrir neðan er listi yfir 5 algengar gervimatvörur.
Pylsur
„Þjóðarréttur” okkar Íslendinga, pylsur, eru sennilega á toppnum sem mest selda gervimatvaran.
Fyrir það fyrsta er pylsan sjálf mjög mikið unnin kjötvara og ef hún er tekin „með öllu” þá bætast við óhollar sósur líkt og remúlaði, sinnep og tómatsósa. Svo er þetta allt sett í hvítt næringarsnautt hveitibrauð. Ekki bætir það að borða pylsuna einnig með steiktum lauk. En sumir setja þó smá næringu í pylsuna með því að hafa með henni hráan lauk. Til að toppa næringarleysi pylsunnar er einn helsti drykkurinn með pylsunni, óhollasti svaladrykkur heims „kókið”.
Það er erfitt að finna eitthvað hollt við pylsur og hér má sjá innihaldslýsingu algengrar pylsu: grísa- , nautgripa- og kindakjöt (57%), vatn, kartöflusterkja, sojaprótein, salt, glúkósi, krydd, bragðefni, laukduft, bindiefni E450, sýrustillir E330, þráavarnarefni E300, rotvarnarefni E250, kollagen pylsugörn. Eins og sjá má á innihaldslýsingunni er bara 57% kjöt í pylsunni, hin 43% eru hin ýmsu aukaefni! Við ættum alltaf að reyna að neyta sem minnst unninna matvara sem innihalda alvöru næringu.
Það er sorglegt að sjá foreldra fæða börnin sín á matmálstímum á pylsuvögnum bæjarins. Þetta er gervimatvara sem ætti að vera sem sjaldnast á boðstólnum, sérstaklega nú á tímum þegar við erum að kljást við lífsstílssjúkdóma sem aldrei fyrr.
Samlokubrauð
Það er staðreynd að mest keyptu brauðin í stórmörkuðunum eru hvað næringarsnauðust, þetta eru stóru samlokubrauðin. Fólk heldur að það sé að fá mikið fyrir peningana, því vissulega eru þessi stóru og miklu brauð ódýrari en flest önnur brauð, þau eru því miður líka hvað fátækust af góðri næringu.
Þó þessi brauð séu merkt sem heilhveitibrauð, þá eru þau mun meiri hveitibrauð en heilhveiti. Aðal innihaldsefnið samkvæmt innihaldslýsingu er hveiti. Því vantar í svona samlokubrauð meira grófkorn, trefjar og vítamín, sem er búið að hreinsa úr heilkorninu.
Brauð telst gott næringarlega séð ef það inniheldur a.m.k. 6 g trefja í 100 g. Hér má sjá næringargildi algengs samlokubrauðs: Næringargildi í 100g: Orka 1135 kJ/267 Kkal, prótein 9 g, kolvetni 51 g (þar af sykur 0 g), fita 3 g (þar af mettaðar fitusýrur 0,3 g og þar af transfitusýrur 0 g), trefjar 3 g, natríum 550 mg. Eins og sjá má á næringargildinu þá eru trefjar einungis 3 g en ættu helst að vera tvöfalt hærri til að þetta geti talist hollt brauð. Þegar brauð er valið í búðinni reynið þá að hafa trefjarnar 6 g eða meira í 100 g og sykur í lágmarki. Besta og ódýrasta ráðið er þó að baka eigið grófbrauð heima úr grófkorni og hinum ýmsu fræjum.
Skólajógúrt
Það er skelfilegt að þessi dísæta mjólkurvara sé markaðssett fyrir börnin okkar og heiti SKÓLAjógúrt!
Mjólkurvörur eru í grunninn mjög hollar matvörur sem innihalda m.a. prótein, kalk og b-vítamín, en því miður hafa markaðsöflin komist í framleiðsluna og talið að það væri helst hægt að selja vöruna í miklu magni ef sem mestu af sykri er bætt út í. Í lítilli skólajógúrtdós eru um 5 sykurmolar! En þessi viðbætti sykur bætir ekki neinu við næringargildið nema aukinni orku, þetta eru tómar hitaeiningar fyrir elsku börnin okkar.
Hér má sjá innihaldslýsingu skólajógúrts með epla og karamellubragði: nýmjólk, sykur, undanrennuduft, bragðefni, lifandi jógúrtgerlar. Magn innihaldsefna í innihaldslýsingu er í minnkandi röð og er því sykur næstalgengasta innihaldsefnið.
Neysla barna og unglinga á viðbættum sykri er nógu mikil, þó við séum ekki að auka neyslu hans í matvörum líkt og sykruðum mjólkurvörum.
Mun betri kostur fyrir börnin okkar eru hreinar mjólkurvörur, við getum sjálf gert þær sætari með niðurskornum ávöxtum. Þó við myndum sjálf hræra skyrið og bragðbæta það með sykri, næðum við aldrei því gríðarmikla sykurmagni sem framleiðendum hefur tekist að troða í sínar dísætu mjólkurvörur.
Sykraðir ávaxtasafar
Hérna trónir líklega í toppnum Svali, sem er samkvæmt framleiðanda, vinsælasti svaladrykkurinn á Íslandi undanfarna áratugi. Þarna má líka telja með Capri Sonne safa sem margir foreldrar eru að gefa börnum sínum og það oft mjög ungum (< 2 ára). Sykurmagnið í venjulegum Svala (250 ml) er 9 sykurmolar og svipað magn er í Capri Sonne (200 ml). Þó er meira af hreinum ávaxtasykri í Svalanum en Capri Sonne, þannig að þeir fá plús þar. En hrósa má framleiðanda Svalans fyrir að bjóða uppá sykurskertan Svala og greinilegt að þar bregðast þeir við gagnrýnisröddum.
En þessir ávaxtasafar eru ekki drykkir sem börnin okkar eiga að nota sem svaladrykk, þar er vatnið úr krananum besti og ódýrasti kosturinn. Langbesta næringin fyrir börnin okkar í stað ávaxtasafanna eru ferskir ávextir sem gefa vítamín, steinefni og trefjar.
Kjúklinganaggar
Þessi gervimatur fer í svipaðan flokk og pylsurnar, þ.e.a.s. mikið unnin kjötvara. En þó er þessi „matvara” nær eingöngu ætluð fyrir börn og þetta er svo auðveld og þægileg lausn fyrir foreldra til að útbúa mat fyrir börn sem er matvönd. Til að toppa næringarleysið er bætt vel af sykraðri tómatsósu yfir naggana.
Hér má sjá innihaldslýsingu af íslenskum kjúklinganöggum: kjúklingakjöt (hakkað og formað), vatn 16%, raspur (hveiti, salt, ger, túrmerik), sojaprótein, sojaolía, salt, hveiti, kryddblanda, þrúgusykur.Maður getur spurt sig hvers vegna þarf að troða öllum þessum efnum í vöruna eins og t.d. sojapróteini og þrúgusykri?
Útlitið verður ekkert betra þegar næringargildið er skoðað því rúm 50% af hitaeiningum er úr fitu, framleiðandinn tekur því miður ekki fram hversu mikið er mettuð fita. En mettaða fitan er síðri í okkar mataræði.
Það er mjög sorglegt að „gúggla” kjúklinganagga, því stærstur hluti heimasíðanna sem koma upp er með matseðla úr skólamötuneytum. Er þetta í alvöru sá matur sem börnum okkar er boðið uppá til að stunda sitt nám?
Tökum þennan gervimat af matseðli barnanna okkar því við getum gert svo miklu betur í því að fæða börnin okkar með alvöru fæðu.
Sýnum ábyrgð og hættum að ala börnin okkar á gervimat. Verum líka góðar fyrirmyndir og neytum alvöru matar sem er næringarríkur og uppbyggjandi. Það er á okkar ábyrgð að kenna börnum okkar um gildi hollrar næringar fyrir lífstíð.
Skrifað af Geir Gunnari Markússyni næringarfræðingi og ritstjóra NLFÍ, ritstjori@nlfi.is