Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er mannréttindasamningur. Markmiðið með honum er að efla, verja og tryggja full mannréttindi fyrir allt fatlað fólk. Jafnframt að efla og vinna að virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess.
Með fullgildingu er íslenska ríkið orðinn aðili að samningnum á alþjóðavettvangi. Með fullgildingu lýsir ríkið því yfir gagnvart Sameinuðu þjóðunum að það sé bundið af þeim skuldbindingum sem felst í samningnum. Skuldbindingar samningsins eru m.a. að tryggja jafnræði og bann við mismunun, sjálfstætt líf, aðgengi, sjálfsákvörðunarrétt, tjáningar- og skoðunarfrelsi, heilsu, atvinnu, menntun og viðunandi lífsafkomu alls fatlaðs fólks, svo eitthvað sé nefnt. Fullgilding felur í sér skýra skyldu ríkisins til þess að innleiða samninginn í öll lög og stefnumótun. Þar er margt eftir óunnið.
Á Íslandi er viðurkennd lögskýringaraðferð að lög skuli skýrð með tilliti til fullgiltra alþjóðasamninga. Fullgilding getur þar með haft áhrif á inntak lagatexta hér á landi.
Fullgilding samningsins felur einnig í sér eftirlit með framkvæmd samningsins á alþjóðavettvangi, sem er í höndum nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Innan tveggja ára frá fullgildingardegi ber ríkjum að skila inn skýrslum um framkvæmd samningsins. Nefndin óskar þá einnig eftir svokölluðum skuggaskýrslum frá hagsmunaaðilum. Nefndin hefur í framhaldi af yfirferð sinni yfir skýrslurnar gefið út lista yfir þau álitamál (list of issues) sem hún krefst svara við. Ríkin og hagsmunaaðilar geta þá skýrt mál sitt enn frekar. Þegar nefndin hefur lokið yfirferð sinni yfir svörin gefur nefndin út tilmæli til úrbóta. Dæmi eru um að ríki hafi bætt stöðu fatlaðs fólks eftir að hafa fengið slík tilmæli.
Einnig felur fullgilding samningsins í sér skyldur allra sem fara með stefnumótun, lagasetningu eða reglusetningu að hafa náið samráð við fatlað fólk og samtök þess.
Valfrjáls bókun við samninginn opnar á einstaklingsbundna kæruleið, telji viðkomandi á sér brotið. Þessi kæruleið er háð þeim skilyrðum að einstaklingur hafi tæmt allar dómstólaleiðir innanlands. Bókunin felur einnig í sér að nefndin getur tekið til sérstakrar skoðunar alvarleg brot ríkja. Fullgilding bókunarinnar er því sjálfsagt og eðlilegt skref með fullgildingu samningsins.
Næstu tvö ár verður ríkið að tryggja efnislega innleiðingu samingsins með réttum hætti. Setja þarf t.d. löggjöf sem bannar mismunun, löggjöf sem tryggir sjálfstætt líf og lagfæra þarf lögræðislög, svo eitthvað sé nefnt. Í framhaldi af fullgildingu þarf að lögfesta samninginn. Það er gert til þess að tryggja réttindin sem í samningnum felast með beinum hætti, eins og gert hefur verið með lögfestingu Mannréttindasáttmála Evrópu og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Er það von okkar að fyrsta verk komandi ríkisstjórnar verði að lögfesta samninginn.
„Er þetta eitt stærsta skref í mannréttindabaráttu fatlaðs fólks á Íslandi og því ber að fagna,“ segir Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands. „Ég fagna sérstaklega því að valfrjálsa bókunin var tekin með og hvet nú stjórnvöld til að vinna hratt og markvisst að lögfestingu samningsins.“
Frekari upplýsingar um samninginn og áhrif hans má finna hér.
Frétt af vef obi.is