Algengustu ofnæmis- og óþolsvaldar í matvælum eru á lista í reglugerð nr. 1294/2014 um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda. Ítarlegar reglur gilda um upplýsingagjöf um þessa ofnæmis- og óþolsvalda í matvælum enda eru réttar og aðgengilegar upplýsingar mjög mikilvægar fyrir neytendur til að forðast þá og hindra þannig ofnæmisviðbrögð. Matvælafyrirtæki þurfa almennt að vanda upplýsingagjöf um matvæli því fleiri innihaldsefni valda ofnæmi og óþoli en þau sem koma fram í listanum, en ekki er jafn ítarleg krafa um upplýsingagjöf um þau.
Listinn inniheldur eftirfarandi hráefni og afurðir úr þeim:
Kornvörur sem innihalda glúten (Hveiti, rúgur, bygg, hafrar, spelt, taumhveiti ), krabbadýr, egg, fiskur, jarðhnetur, sojabaunir, mjólk, hnetur(gefa upp tegund), sellerí , sinnep, sesamfræ, brennisteinsdíoxíð og súlfít , lúpína, lindýr.
Þessi orð eiga að koma fram á merkingunni. Þó má nota vel þekkt heiti t.d. fisk- og krabbategunda (s.s. ýsa og rækja) og heiti afurða ef uppruni er almennt mjög vel þekktur s.s. smjör og skyr, án þess að nota orðin sem fram koma í listanum. Hins vegar þarf að taka fram orðið „fiskur“ þegar minna þekktar eða framandi tegundir eru notaðar og „mjólk“ þegar uppruni mjólkurafurðar er minna þekktur svo dæmi séu tekin.
Þegar þessi orð koma skýrt fram í heiti vöru er ekki skylt að endurtaka það í upptalningu innihaldsefna. Það þarf því að skoða vöruheiti líka m.t.t. ofnæmis- og óþolsvalda.
Það er skylt að gefa upplýsingar á skýran hátt um alla ofnæmis- og óþolsvalda sem eru í lista reglugerðarinnar í ópökkuðum matvörum og öðrum matvörum sem ekki er pakkað fyrirfram, t.d. í fiskbúðum, sælgætis- og salatbörum, veitingahúsum og mötuneytum. Upplýsingarnar verða alltaf að vera tiltækar og aðgengilegar. Þær geta komið fram á merkingum við vöruna eða matseðli. Ef upplýsingarnar um ofnæmis- og óþolsvalda koma ekki fram skriflega, verður að koma fram skriflega að starfsfólk veiti upplýsingar um þá.
Ertu með ofnæmi eða óþol ? Starfsfólk veitir upplýsingar um innihald allra vara |
Þegar matur er pantaður símleiðis eða á vefnum eiga neytendur rétt á sömu upplýsingum.
Á matvörum sem pakkaðar eru fyrirfram, verða hráefni og afurðir sem eru á fyrrnefndum lista að vera merkt með skýrum hætti með heiti ofnæmis-/óþolsvalds og leturbreytingu t.d. feitletrun.
Mjólkursúkkulaði með kornflexi og möndlum.
Innihaldsefni: Sykur, kornflex (maís, sykur, salt, byggmalt), kakósmjör, kakómassi, undanrennuduft (úr mjólk), möndlur, mysuduft (úr mjólk), mjólkursykur, smjör, ýruefni (sojalesitín), bragðefni.
Á Íslandi eru leyfð íslenska, enska og norðurlandamál önnur en finnska í merkingum matvæla. Fyrrnefndan lista í reglugerðinni má finna á þessum tungumálum í leiðbeiningum Matvælastofnunar um upplýsingagjöf um ofnæmis- og óþolsvalda á mast.is.
Í upptalningu á innihaldsefnum í merkingum matvæla á eingöngu að hafa þau innihaldsefni sem notuð eru í matvælin. Ef matvælafyrirtæki telur að hætta sé á að önnur hráefni sem eru á lista ofnæmis- og óþolsvalda geti borist í matvælin, getur það notað merkinguna „Gæti innihaldið ...“ Þetta getur t.d. gerst þegar sömu vélar, form, áhöld eru notuð fyrir mismunandi vörur. Hjá Evrópusambandinu er hafin vinna við að móta reglur um slíkar merkingar.
Matvæli sem innihalda einhver þeirra hráefna sem eru á listanum eða afurðir úr þeim, án skýrra merkinga, teljast ekki örugg til neyslu skv. 8. grein laga nr. 93/1995 um matvæli og mega því ekki vera á markaði. Matvælafyrirtækjum ber því að taka slíkar vörur af markaði tafarlaust og tilkynna til síns lögbæra eftirlitsaðila og til fjölmiðla, ef varan er komin til neytenda.
Ef þú veist um matvöru pakkaða eða ópakkaða þar sem réttar upplýsingar/merkingar um ofnæmis- og óþolsvalda vantar er rétt að benda viðkomandi fyrirtæki á og/eða láta Heilbrigðiseftirlit eða Matvælastofnun vita. Matvælastofnun tekur við þessum og öðrum ábendingum í netfangið mast@mast.is.
Grein eftir Jónínu Stefánsdóttur