Fara í efni

Grænn Kostur með uppskrift af hátíðarmat fyrir vegan og grænmetisætur

Heilsutorg hafði samband við Grænan Kost nú á dögunum því okkur langar að færa þeim sem eru grænmetisætur og vegan góða uppskrift af hátíðarmat.
Grænn Kostur, elsta grænmetisveitingahús á landinu
Grænn Kostur, elsta grænmetisveitingahús á landinu

Heilsutorg hafði samband við Grænan Kost nú á dögunum því okkur langar að færa þeim sem eru grænmetisætur og vegan góða uppskrift af hátíðarmat.

Það var nú lítið mál fyrir þær að verða við þessari ósk okkar og hún Dagný í samvinnu við Daiva yfirkokk settu saman dýrindis matseðil.

Grænn Kostur er elsti grænmetis veitingastaður landsins og hefur alltaf lagt áherslu á staðgóðan grænmetismat fyrir grænmetisætur, þá sem eru vegan og þá sem ekki þola glúten.

En grænmetisætur eru margskonar, sumir borða dýraafurði eins og egg, ost og smjör þar sem þeir sem eru vegan borða engar afurðir sem rekja má til dýra.

Svo eru þeir sem ekki þola glúten, hvort sem þeir eru grænmetisætur eða ekki. Það er einmitt fólkið með glúten óþolið sem er í auknum mæli farið að koma á Grænan Kost því við pössum að hafa ávalt glútenlausan valkost.

Að elda jólamatinn getur verið skemmtileg athöfn sem tekur jafnvel allan daginn. Algengasta jólahefðin í mat er Hamborgarhryggur og rjúpur og jafnvel smá biti af Hnetusteik til að prufa en á mörgum heimilum er grænmetisrétturinn orðinn nauðsynlegur hluti af jólaréttunum.

Hnetusteikina er einnig hægt að kaupa tilbúna á Grænum Kosti fyrir jólin.

Uppskriftin sem Daiva, yfirkokkur á Grænum Kosti  gefur  okkur er ekki bara góð, hún getur verið vegan og glútenlaus auk þess að vera mjög próteinrík.

Svo er líka svo gaman að búa hana til.

Innbökuð grænmetissteik  með marineruðu rósakáli  og Waldorfsalati ásamt vegan og glútenlausri útgáfu.

Innihald:

Smjördeig
200 gr. Heslihnetur
200 gr. Valhnetur
2 meðalstórir laukar
2-3 hvítlauksrif
Ferskt rósmarin, timian og oregano
½  tsk.  Karrý
½ tsk.  Cummin
½ tsk.  Paprika
1 stk.   lítið, ferskt chili
1 tsk.   Salt
½  tsk. Pipar
2 matskeiðar grænmetiskraftur
2 matskeiðar tómatpuree
1 líter (notið mælikönnu) sætar kartöflur í teningum (ca. 2x2 cm)
1 haus sellerírót í teningum (ca. 2x2 cm)
1 glas bókhveiti
1 glas kínóa
Olía til steikingar
 
Undirbúningur:

Skerið sætar kartöflur og sellerírót í teninga, veltið upp úr olíu, saltið og piprið og bakið í ofnskúffu í 30-40 mínútur við 160 C°,  Kælið.
 
Skolið vel bókhveiti og kínóa og sjóðið í 4 glösum af vatni í 15 mínútur. Kælið.
 
Ristið hneturnar í ofnskúffu í  5-8 mínútur við 140 °C.  Kælið.

Aðferð:

Fínsaxið lauk og hvítlauk og chili og steikið í olíu þar til glær, bætið við kryddi og tómatpuree og steikið áfram í 2-3 mínútur. Kælið.

Þegar allt innihaldið hefur kólnað það mikið að hægt sé að blanda það með höndunum, takið þá stóra skál og blandið öllu saman. Best er að nota hendurnar en það má líka nota sleif.

Þeir sem vilja ekki hafa neina bita í deiginu geta marið deigið með kartöflustöppu. Smakkið og kryddið til eftir smekk. Ef deigð er of blautt má bæta við tómatpuree.

Fletjið út smjördeigið. Ef notaðar eru margar litlar plötur má merja þær saman á köntunum og rúlla yfir með kökukefli. Penslið allt deigið með pískuðu eggi. Komið fyllingunni fyrir á deiginu og búið til rúllu. Látið samskeitin skarast vel og snúa upp, styngið tannstönglum í til að tryggja að rúllan opnist ekki. Penslið rúlluna að utan.

Hægt er að nota afgangs smjördeig, skera út lauf eða rósir og leggja ofaná rúlluna til skrauts. Bakið í ofni í 20 mínútur við 180 C° eða þar til rúllan er gullin á litinn.

VEGAN OG GLÚTENLAUS ÚTGÁFA

Þar sem allt í þessari uppskrift er vegan og glútenlaust nema smjördeigið, má sleppa því og móta fyllinguna í lengju á smjörpappír og hjúpa með heslihnetum og möndluflögum. Þá er lengjan bökuð með álpappír í 15 mínútur og 5 mínútur til viðbótar án álpappírs. Þeir sem vilja ekki hnetur geta notað graskersfræ og sólblómafræ með sömu aðferð.

Vegan útgáfa af Waldorf salati.

Epli – afhýdd, skorin í bita og sett beint í sítrónuvatn
Vínber
Valhnetur
Sellerí  (má sleppa og nota melónu í staðinn, t.d. cantalópu)
Bláber (eða ber að eigin vali)

Cashew dressing:

200 gr cashew hnetur lagðar í bleyti í 200 ml af vatni í 2-3 klst. (Ekki lengur, þá drekka þær of mikið vatn)
2-3 döðlur
Salt og pipar

Aðferð:

Setjið allt í blandara og blandið þar til er orðið að kremi. Hrærið saman við salatið.
 
Marinerað Rósakál

Marineringin:

1 msk tamarin
1 msk marinn hvítlaukur
1 msk agave síróp
1 msk olía
½  tsk salt
Safi úr ½ sítrónu

Aðferð:

Blandið öllu saman, skerið rósakálið til helminga og látið liggja í marineringunni í 20 mínútur.
Bakið í ofni við 160 °C í 15-20 mínútur

Hér má sjá myndir af þessum girnilegu réttum ásamt myndum frá Grænum Kosti og þær Dagnýju og Daiva: Grænn Kostur

Ofsalega eru þetta nú freistandi uppskriftir. Ég vona að ykkur líki vel.

Kíkið á Facebook síðu hjá Grænum Kosti, þar er alltaf eitthvað nýtt og freistandi á matseðlinum.