Hafrún skrifaði færslu á Facebook á þriðjudagskvöld sem vakið hefur mikla athygli en tilefnið var þáttur á RÚV, Predict My Future: The Science of Us, sem sýndur var fyrr um kvöldið.
Í þættinum á þriðjudag var meðal annars fjallað um áhrif kannabisneyslu á fólk.
Hafrún sagði í pistlinum:
„Rétt áðan var ansi góður þáttur á RUV um samspil erfða og umhverfis í geðröskunum. Þar var sagt frá rannsóknum sem flestir sem hafa unnið innan geðheilbrigðiskerfisins þekkja ágætlega en virðist vera lítill þekking á meðal almennings. Í stuttu máli: Ungt fólk sem notar kannabis er í rússneskri rúllettu með heilann á sér. Það margfaldar líkunar á að þróa með sér geðrofssjúkdóma og trúið mér, það eru ekki sjúkdómar sem eru eitthvað léttvægir. Auk þessa þá gerir neysla kannabis, sérstaklega ef þú byrjar ungur að nota þetta drasl þig heimskari, þ.e. greindarvísitalan droppar og það getur haft heilmikið um það að segja hvað viðkomandi getur tekið sér fyrir hendur í lífinu.“
HAFRÚN KRISTJÁNSDÓTTIR
Í þættinum á þriðjudag var meðal annars rætt við ungan mann, Chris McMurray, sem var ungur þegar hann byrjaði að fikta með eiturlyf, kannabis þar á meðal. Chris, sem er 25 ára, segir að hann og vinir hans hafi keypt sér gras á nokkurra daga fresti þegar þeir voru unglingar.
„Svo fór ég að kaupa meira og var farinn að reykja mjög reglulega. Það er gaman hjá öllum hinum og manni sjálfum en svo fara litlar hugsanir að verða stærri,“ segir hann.
Þegar hann var sautján ára dundu ósköpin yfir. Þá hafði hann notað kannabis og partípillur svo dögum skiptir og verið vakandi í fjórar til fimm nætur. „Undir lokin tók það mig bara, það var eins og fjúka burt með vindum. Ég var alveg út úr. Alveg bólufreðinn, ég hafði aldrei kynnst annarri eins vímu. Ég var með ranghugmyndir, taldi mig geta lesið hugsanir vina minna. Ég hélt að einn besti vinur minn væri að reyna að drepa mig.“
Síðar kom á daginn að Chris var greindur með geðrof af völdum neyslu. Hann var lagður inn á geðdeild og rankaði við sér þremur dögum síðar. Einkennin hurfu ekki og nú, átta árum síðar, er hann enn með geðklofa.
Chris heldur sjúkdóminum niðri með lyfjum og samtalsmeðferð hjá sálfræðingi en segist óska þess að hann hafi aldrei byrjað að nota fíkniefni. „Ég vildi óska þess að ég hefði aldrei prófað dóp, aldrei reykt gras, að ég hefði ekki reykt svona mikið. Þetta kemur allt í bakið á mér núna. Það er erfitt.“
Í þáttunum kom fram að undir venjulegum kringumstæðum greinist að meðaltali einn af hverjum hundrað með geðklofa. Tíu prósent þeirra sem tóku þátt í rannsókninni sem fjallað er um í þáttunum – og reyktu kannabis reglulega þegar þeir voru unglingar – fengu sjúkdóminn. Hlutfallið er tíu sinnum hærra en meðaltalshlutfallið.
En hvað er það sem veldur þessu?
Louise Arseneault, prófessor við geðlækningadeild King‘s College í London, segir í þættinum að auðvelt sé að ímynda sér að fólk sé hikandi við að trúa því að kannabisreykingar geti valdið geðrofi eða einkennum geðrofs. „Vegna þess að margir nota kannabis og margir þeirra fá ekki geðsjúkdóm,“ segir hún og bætir við að mikilvægur þáttur í þessu séu genin okkar.
Í þáttunum kom fram að 80 prósent þátttakenda í rannsókninni hafði notað kannabisefni fyrir 26 ára aldur. Eins og bent er á hér að framan fengu fæstir þeirra geðklofa. Grasneysla var því ekki eina orsökin. Terrie Moffitt, einn aðstandenda rannsóknarinnar, útskýrði það að vísindamenn hafi ákveðið að beina spjótum sínum að einu ákveðnu geni.
„Genið sem við ákváðum að rannsaka heitir COMT. Það vakti áhuga okkar vegna þess að áhrif þess í heilanum eru í sama heilakerfi og kannabis hefur áhrif á og sömu heilakerfum sem eru afbrigðileg í þeim sem fá geðklofa. Þetta var því gott gen til að byrja á. Við komumst að því að þeir sem höfðu áhættuarfgerð þessa gens voru líklegri til að fá geðrof eftir tvítugt ef þeir notuðu mikið kannabis fyrir fimmtán ára aldur. Enn og aftur var það samsetningin. COMT-genið tengdist ekki geðklofa nema hjá þeim sem reyktu kannabis og kannabis tengdist ekki geðklofa nema maður hefði áhættuarfgerðina.“
Þetta var því aðeins vandamál hjá þeim sem höfðu COMT-genið og notuðu kannabis fyrir 18 ára aldur. Þeir sem höfðu genið en notuðu ekki kannabis fyrr en á fullorðinsaldri voru ekki í hættu.
Hafrún endar pistilinn á þeim orðum að kannabis sé langt því frá hættulaust fyrir ungt fólk, eins og einhverjir hafa viljað halda fram.
„Semsagt, kannabis er ekki skaðlaust sérstaklega ekki fyrir ungt fólk. Það getur haft alvarlegar afleiðingar. Þetta sjá þeir sem vinna í geðheilbrigðiskerfinu nánast á hverjum degi. Ranti þessa ársfjórðungs er lokið.“
Hægt er að horfa á þennan mjög svo áhugaverða þátt hér.
Hluti af þessari grein er fengin að láni frá DV.is.