Haustið 2012 var ýtt úr vör sannkölluðu brautryðjendastarfi þegar Mosfellsbær, Embætti landlæknis og Heilsuvin í Mosfellsbæ tóku höndum saman um þróun og mótun fyrsta heilsueflandi samfélagsins á Íslandi. Í liðinni viku bættist svo við samningur við Reykjavíkurborg um lýðheilsustefnu sem felur í sér stefnumótun um heilsueflandi hverfi borgarinnar. Það hefur verið á stefnuskrá Embættis landlæknis að setja af stað verkefni um heilsueflandi samfélög en Heilsuvin, sem er samstarfsvettvangur (klasi) fyrirtækja, einstaklinga og stofnana um heilsutengda starfsemi, átti frumkvæðið að þessari vegferð í Mosfellsbæ og var verkefnið afmælisgjöf bæjaryfirvalda til íbúa sinna á 25 ára afmæli sveitarfélagsins á liðnu ári.
En það þarf meira en afmælisgjafir og samninga til að hafa áhrif á heilsu bæjarfélags eða hverfis innan borgarinnar. Íbúar samfélagsins þurfa að koma að greiningarvinnu til undirbúnings slíkri stefnumótun þar sem ekki dugir að segja fólki hvað það á að gera til að öðlast heilsu þar sem við vitum öll að slíkt virkar ekki. Þá þarf stjórn bæjarfélagsins að innleiða stefnu sem þarf að vera í takt við þarfir og óskir íbúanna sem vilja bæta heilsuvitund sína og lífsgæði. Það er ekki nóg að segjast vera heilsueflandi samfélag. Að lokum munu áhrifin smitast á milli manna en það mun taka tíma. Vörumst að halda að við getum smellt fingri, sett stefnu í gang og breytt hegðun fólks. Það mun ekki gerast. Góðir hlutir gerast hægt en gerast þó með markvissum aðgerðum og eftirfylgni.
Í stefnumótun Embætti landlæknis um áhrifaþætti heilbrigðis 2012-2016 kemur fram að árið 2016 sé stefnt á að það verði til ráðleggingar um heilsueflandi samfélag sem styðja stór og smá samfélög í markvissri heilsueflingu með stefnumótun og markvissum aðgerðum. Embættið mun leggja fyrir gátlista sem bæjarfélögin munu þurfa að uppfylla til að geta kallast heilsueflandi samfélag. Það sem skiptir hinsvegar mestu máli er að íbúar bæjarfélagsins geri verkefnið einnig að sínu og að bæjaryfirvöld vinni stefnuna um heilsueflingu í gegnum allt samfélagið. Til eru fyrirmyndir að heilsueflandi samfélögum erlendis eins og „Healty cities“ og „Healty communities“ og þegar horft er til reynslu þeirra verkefna þá ber að hafa eftirfarandi í huga þegar við innleiðingu stefnunnar:
1) Til að geta mælt árangur verkefnisins þarf að greina stöðuna í samfélaginu eins og hún er áður en stefnumótun á sér stað og verkefnið er innleitt.
2) Mikilvægt er að bjóða íbúum að borðinu þegar undirbúningur stefnumótunar á sér stað. Hafa ber í huga að ekki eru öll samfélög eins og þarfir geta verið mismunandi. Því þarf ekki að vera að öll verkefnin muni líta eins út þegar þeim er ýtt úr vör.
3) Taka lítil skref í einu. Róm var ekki byggð á einum degi og það tekur tíma að breyta menningu samfélags en það er vel hægt með skipulagi og árangursmælingum. Fagmennska er lykilatriði þegar innleiða á stefnu sem kemur til með að breyta heilsuvitund heils samfélags.
4) Eftirfylgni er nauðsynleg og oftast falla verkefni eins og þetta á þeim hluta. Ekki er nægilegt að verkefnið sé í keyrslu, það þarf öflugan faglærðan starfsmann til að fylgja því eftir að framkvæmd sé rétt og vel unnin.
Að lokum óska ég Mosfellingum og Reykvíkingum hjartanlega til hamingju með þá ákvörðun sína að innleiða stefnu um heilsueflandi samfélag. Ég er sannfærð um að eftir 20 ár hafi öll sveitarfélög á landinu tileinkað sér slíka stefnu og við getum þá lýst því yfir að Ísland sé fyrsta heilsueflandi landið á heimsvísu.
Með lýðheilsukveðju,
Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir, lýðheilsufræðingur