Fara í efni

Heilsutengd matvælaframleiðsla

Fjölmargir aðilar framleiða hráefni og fullunnar vörur hér á Íslandi.
Heilsutorg.com er miðja heilsu á Íslandi
Heilsutorg.com er miðja heilsu á Íslandi

Á dögunum birti MATÍS fréttatilkynningu, meðal annars á Heilsutorgi, þar sem upplýst var um nýsköpunarsamkeppni um viðskiptahugmyndir í matvæla- og líftækniiðnaði. Samkeppnin, sem er samvinnuverkefni MATÍS og Landsbankans, leggur upp með að hugmyndirnar byggist á íslensku hráefni eða hugviti, geti orðið atvinnuskapandi og verði þannig landi og þjóð til framdráttar til framtíðar. Sjá  hér 

Framleiðsla á matvælum úr íslensku hráefni er gríðarlega mikilvæg fyrir þjóðarbúið og getur lagt sitt af mörkum hvað varðar hagkvæmni og hagstæðan vöruskiptajöfnuð. Íslensk matvæli eru einnig frábær landkynning og sá fjöldi ferðamanna sem nú þegar heimsækir landið kemst ekki hjá að bragða á afurðunum og taka jafnvel með sér heim til að gefa vinum og ættingjum að smakka og breiða þannig enn frekar út boðskap okkar um hrein og náttúruleg matvæli.

Íslensk matvæli eru flutt á markaði erlendis og njóta þar sérstöðu og vinsælda, en einkunnarorðin eru gjarnan eitthvað á þennan veg „hreinleiki og heilnæmi úr óspilltri náttúru“. Að sjálfsögðu vildum við flytja út meira af matvælum en útflutningur ætti ekki að vera okkar helsta markmið heldur að framleiða meira af heilnæmum mat til að næra landsmenn og komandi kynslóðir. Einnig að styðja við bakið á íslenskum framleiðendum á hvaða sviði sem þeir eru, skapa atvinnu á Íslandi og stuðla þannig að hagsæld og framförum.

Það eru ekki aðeins Íslendingar sem hafa áhuga á matvælaframleiðslu og íslensku hráefni. Ekki ómerkari menn en Dr. Gregory L. Yep framkvæmdastjóri langtímarannsókna hjá PepsiCo. heimsótti MATÍS og fleiri aðila í hráefnis og matvælaframleiðslu á Íslandi til að ræða aukið samstarf til framtíðar. Dr. Yep hélt einnig erindi þar sem hann skýrði vinnubrögð og framtíðarsýn PepsiCo. Hann fór yfir helstu örgranir nútíma matvæla- og drykkjaframleiðslu, hvernig áherslan á einstaklinginn og hans séróskir eykst jafnt og þétt. Dr. Yep vill meina að framtíðin sé að finna hvernig einstaklingar af mismunandi kyni og aldri, vinnandi mismunandi störf og lifandi mismunandi lífstíll hefur áhrif á það hvað einstaklingurinn kýs helst þegar matur og drykkur er annars vegar. PepsiCo sér fyrir sér möguleika hér í tengslum við sjávarfang og annað sem tengist hafinu og sjávarlífverum. Sjá nánar um PepsiCo http://www.pepsico.com/

Dr. Yep lýsti því hvernig fyrirtæki hans, sem framleiðir gríðarlega fjölbreytta flóru matvæla og drykkjarvara, skoðar sitt hráefni með tilliti til stærðar, lögunar og bragðs. Hann talaði sérstaklega um appelsínur, kartöflur og hafra í þessum efnum en fyrirtækið framleiðir Tropicana appelsínusafann, kartöfluflögur undir merkinu Lay´s sem t.d. Subway keðjan selur svo og Quaker Oats sem er einn þekktasti framleiðandi haframjöls og tilbúinna morgunverðargrauta í heiminum. Til marks um umsvif PepsiCo, sem sumir tengja aðeins við gosdrykkinn Pepsí, þá eru vörur fyrirtækisins seldar í yfir 200 löndum og svæðum í heiminum.

Matvælaframleiðsla, hvar sem er í heiminum, krefst tækniframfara, viðhalds og ýmiskonar þjónustu og það krefst þekkingar, menntunar og mannafla. Það að framleiða meira hér á landi og flytja minna inn, hefur einnig á hrif á vöruskiptajöfnuð og fjárstreymi.

Fjölmargir aðilar framleiða hráefni og fullunnar vörur hér á Íslandi. Heilsutorg ætlar að leita uppi þessa aðila og gefa þeim sem framleiða heilnæm matvæli kost á að segja frá sér, sinni framleiðslu og framtíðarsýn hér á Heilsutorgi og eru ábendingar og fyrirspurnir velkomnar á heilsutorg@heilsutorg.com