Fara í efni

Heilueflandi samfélag í brennidepli

Í dag miðvikudaginn 2. október verður formlega skrifað undir samning milli Mosfellsbæjar, heilsuklasans Heilsuvinjar og Embættis landlæknis um verkefnið „Heilsueflandi samfélag“ og verður Mosfellsbær þar með fyrsta sveitarfélagið til að verða formlegur þátttakandi í verkefninu.
Heilsuefling í Mosfellsbæ.
Heilsuefling í Mosfellsbæ.

Í dag miðvikudaginn 2. október verður formlega skrifað undir samning milli Mosfellsbæjar, heilsuklasans Heilsuvinjar og Embættis landlæknis um verkefnið „Heilsueflandi samfélag“ og verður Mosfellsbær þar með fyrsta sveitarfélagið  til að verða formlegur þátttakandi í verkefninu. Undanfarið ár hefur undirbúningur verkefnisins staðið yfir eða allt frá því að hugmyndin var kynnt fyrir bæjaryfirvöldum af heilsuklasanum Heilsuvin sem er samstarfsvettvangur fyrirtækja, stofnana, félaga og einstaklinga um heilsueflingu í Mosfellsbæ. Margir hafa þar lagt hönd á plóg til að gera hugmyndina að veruleika og nú hefur verið lögð fram greiningarskýrsla um stöðu bæjarfélagsins með tilliti til heilsu og vellíðunar og verður hún lögð verður til grundvallar þeim aðgerðum og stefnumótun sem hrint verður af stað í kjölfarið.

Verkefninu hefur verið skipt í fjóra áhersluþætti og er gert ráð fyrir að hver áhersluþáttur verði í brennidepli í u.þ.b. eitt ár. Unnið verður í málefnum um næringu/mataræði fyrsta árið, hreyfingu og útivist annað árið, líðan/geðrækt þriðja árið og að lokum lífsgæði sem felast m.a. í öryggi og forvörnum í samfélögum.

Það er nauðsynlegt að fara í greiningarvinnu til að skoða kosti og galla hvers samfélags fyrir sig þegar stórt og viðamikið stefnumótunarverkefni eins og Heilsueflandi samfélag er ýtt úr vör. Mismunandi menning er innan samfélaga og styrkleikar og veikleikar því mismunandi en alls staðar munu liggja tækifæri í að gera betur í tengslum við áhersluþætti þó að það verði mismunandi mikið eftir styrkleikum og veikleikum.

Ég vann að greiningarskýrslunni sem getið er hér að ofan og þekki því verkefnið vel og get sagt að styrkleikar Mosfellsbæjar felast m.a. klárlega í því hversu vel þeir sinna íþróttum hjá ungmennum, náttúrunni sem umlykur bæinn, merktum gönguleiðum ásamt ræktun og framleiðslu hollrar fæðu. Þá má einnig nefna íþróttamannvirkin eins og sundlaugar bæjarins, en sumir sækja sund til Mosfellsbæjar úr öðrum bæjarfélögum vegna ánægju með aðstöðu. Mörg heilsufyrirtæki eru rekin í Mosfellsbæ og er Reykjalundur þeirra stærst og skapar þau fyrirtæki heilsueflingu enn sterkari grunn. Fyrir utan starfsmenn bæjarins þá starfa flestir í Mosfellsbæ við heilsueflingu af ýmsum toga. Tækifærin felast einnig í því að virkja íbúana betur, fá ræktunaraðila og matvælaframleiðendur til að vinna betur saman og bæta sýnileika heilsueflingar í bæjarfélaginu. Þá er jafnframt nauðsynlegt að leggja áherslu á unga fólkið eins og gert er með verkefnum eins og Heilsueflandi leikskóli, Heilsueflandi grunnskóli og Heilsueflandi framhaldsskóli sem öll eru að verða virk innan bæjarfélagsins og munu því efla verkefnið til muna. Veikleikarnir eru einna helst þeir að ásýnd bæjarins felur ekki í sér þá heilsusýn sem talin er upp í styrkleikum og þörf er á að gera sýnilegri. Þegar keyrt er í gegnum bæinn eru skyndibitastaðir sýnilegir en ekki hollustan sem margir gera sér þó ferð eftir á grænmetismarkaði sem eru vel falið leyndarmál bæjarins.

Nú eru spennandi tímar framundan þar sem þetta er fyrsta verkefni sinnar tegundar hérlendis og Mosfellingar því frumkvöðlar á þessu sviði. Þetta er viðamikið verkefni og breytingarferlið mun taka mörg ár en það er svo sannarlega til mikils að vinna og verður gaman að sjá Mosfellsbæ færast í heilsubúning á komandi árum.

Til hamingju Mosfellingar!

Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir, formaður Félags lýðheilsufræðinga.