Þannig verða tískufyrirsætur héðan í frá að undirgangast heilbrigðisskoðun, eigi þær að hreppa verkefni, en ákvæðið var bundið í lög á franska þinginu sl. fimmtudag. Lagasetningin er liður í stærra átaki sem talsvert hefur verið til umræðu undanfarna mánuði og meinar stúlkum sem eru hættulega grannar að starfa við kynningu á tískuvarningi.Meðal þess sem stúlkur sem sækja um fyrirsætustörf í Frakklandi þurfa nú að vísa fram, er læknisvottorð sem sýnir fram á að þær séu heilar heilsu; að BMI stuðull þeirra sé innan eðlilegra marka og í heilbrigðu samræmi við þyngd þeirra, aldur og líkamslögun. Fyrra frumvarp lagði til að BMI stuðull stúlknanna yrði að vera innan heilbrigðra marka, en meðal BMI stuðull franskra kvenna er 23.2 samkvæmt því sem fram kemur á vef Mashable. Þá kemur einnig fram að neðri og efri mörk BMI stuðuls kvenna sé á bilinu 18.5 til 24.9 og verður tekið mið af fyrrgreindu við ákvörðun um ráðningu.
Út fer heróínlúkkið og inn kemur heilbrigðin
Atvinnurekandi sem gengur í bága við nýju lögin getur átt allt að sex mánaða fangelsisdóm á hættu ásamt því að þurfa að reiða fram heilar 75.000 evrur í sekt, en á núgildandi gengi íslensku krónunnar jafngildir upphæðin tæpum 11 milljónum íslenskra króna. En það er ekki allt: frönsk yfirvöld hafa fyrirskipað svo að tískuljósmyndarar sem vinni ljósmyndir sínar svo fyrirsæturnar virðist ýmist grennri eða breiðari um sig, verði að sérmerkja myndina með orðunum: „Unnin/breytt ljósmynd” og ganga þau lög í gildi þann 1. janúar 2017.
Samkvæmt því er kemur fram á Women’s Wear Daily hefur tískuiðnaðurinn ekki tekið lagabreytingunni vel, en fjölmargir tískurisar bíða þess að lögin verði útlistuð nánar. Þá hefur heilsufar tískufyrirsætna verið talsvert gagnrýnt á undanförnum árum, en talið er að á milli 30.000 til 40.000 einstaklingar í Frakklandi glími við anorexíu, þar af eru 90% þeirra konur. Frakkar eru ekki þeir einu sem hafa bundið fyrrgreint í lög, heldur fetar vagga tískuiðnaðarins hér í fótspor Ísraels, Ítalíu og Spánar og þykir í tíma tekið, þó vissulega sé um stórtíðindi í hátískuheiminum að ræða.