Bakterían kemst þannig um munn og niður í meltingarveg og framleiðir eiturefni sem getur valdið blóðugum niðurgangi og í alvarlegum tilfellum nýrnabilun og blóðleysi (Hemolytic Uremic Syndrome).
Börnin sem sýktust búa öll á höfuðborgarsvæðinu en hafa öll líklega smitast í uppsveitum Árnessýslu eða nánar tiltekið í Bláskógabyggð en á þessari stundu er ekki ljóst hver uppspretta smitsins er. Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit Suðurlands vinna nú að því að greina uppruna sýkinganna og stöðva frekari útbreiðslu.
Matvælastofnun greindi nýlega frá tilvist sjúkdómsvaldandi baktería í kjöti á markaði á Íslandi. Þar kom fram að STEC bakteríur finnast í 30% sýna af lambakjöti og 11,5% sýna af nautgripakjöti. Auk þess geta bakteríurnar fundist í ógerilsneyddri mjólk.
Einstaklingar sem dvalist hafa undanfarnar 2–3 vikur í uppsveitum Árnessýslu (Bláskógabyggð) og veikjast með blóðugum niðurgangi eru hvattir til að leita til læknis svo ganga megi úr skugga um hvort þeir hafi sýkst af ofangreindri bakteríu.