Fara í efni

Í minningu Guðjóns Magnússonar prófessors í lýðheilsufræðum

Á ráðstefnuna mættu á miðju sumri um 300 manns. Þessi gríðarlega góða mæting segir okkur að áhugi á lýðheilsu hefur eflst gríðarlega hérlendis. Hugmyndafræðin sem snýst um að einbeita sér að eflingu heilsu fremur en heilsuleysi er að setjast inn hjá Íslendingum.
Sir Michael Marmot
Sir Michael Marmot

Síðastliðinn föstudag 28. júní var haldin ráðstefna um áhrifaþætti á heilsu og vellíðan í Háskólanum í Reykjavík til minningar um dr. Guðjón Magnússon prófessor í lýðheilusfræðum. Guðjón var fremstur meðal íslendinga og brautryðjandi hérlendis þegar kom að lýðheilsu. Hann vann meðal annars hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og var rektor Norræna heilbrigðisháskólans í Gautaborg (NHV) en snéri svo heim með alla þekkinguna sem hann hafði aflað sér og hóf störf við að breiða út boðskapinn. Guðjón kom að vinnu á sviði lýðheilsu þvert á allar þær stofnanir sem skipta máli í því tilliti. Guðjón var rétt að byrja að nýta krafta sína hérlendis og nýlega ráðinn prófessor við lýðheilsudeild Háskólans í Reykjavík þegar hann féll frá langt fyrir aldur fram. Við sem fengum að njóta þess heiðurs að fá að kynnast honum og hans störfum munum halda áfram því góða starfi sem hann hóf,  að innleiða lýðheilsuhugsun í stefnumótun stjórnvalda hérlendis. Lærðum við af Guðjóni að lýðheilsuaðgerðir snúast um að nýta rannsóknir og þekkingu fræðimanna til  að hafa áhrif á ákvarðanir stjórnvalda  og „maður á mann“ aðferðina til að hafa áhrif á velferð samfélagsins.

Á ráðstefnuna mættu á miðju sumri um 300 manns. Þessi gríðarlega góða mæting segir okkur að áhugi á lýðheilsu hefur eflst gríðarlega hérlendis. Hugmyndafræðin sem snýst um að einbeita sér að  eflingu heilsu fremur en heilsuleysi er að setjast inn hjá Íslendingum. Tveir heiðursgestir voru á ráðstefnunni; Sir Michael Marmot prófessor við University College London og forstjóri Institute of Health Equity og Felicia Huppert  prófessor og forstjóri The Well-being Institute við Cambridgeháskóla. Ráðstefnan var formlega sett af Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra.

Sir Michael Marmot var frummælandi og einnig góður vinur Guðjóns og samstarfsfélagi.  Marmot hefur leitt vinnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á sviði heilsujöfnuðar og er nú ráðgjafi stjórnvalda víða um heim. Marmot hefur einnig unnið ötullega að lýðheilsumálum í Englandi og unnið margar greiningarskýrslur um ástandið þar. Meðal nýlegra skýrslna sem skrifaðar hafa verið undir hans handleiðslu eru Closing the gap in a generation (2008) þar sem hann gerir grein fyrir því hvernig hægt er að vinna gegn auknum ójöfnuði og áhrifum þess á heilsu.

Áhersla er lögð á tvennt í þeirri skýrslu annað er ójöfnuður innan samfélaga og hins vegar jafnrétti til heilsu innan samfélaga.  Marmot var beinskeittur í orðum sínum þegar hann sagði marga missa líf sitt vegna ójöfnuðar. Sú þekking sem við búum yfir getur bjargað þessum mannlífum. Þekkingarleysi er ekki vandamálið. Við vitum um fátæktina og vandamálin, við vitum hvar fólkið er. Peningar eru ekki vandamálið en það sáum við þegar bankar víðs vegar um heiminn fóru í gjaldþrot. Hérlendis var t.d. þremur bönkum bjargað frá gjaldþroti  „af okkur“,  300.000 manns á Íslandi! Í Englandi gerðist það sama. Allt í einu var hægt að reiða fram fjármagn sem fékk okkur, hinn almenna borgara, til að svima, margfalt það sem kostar að aðstoða fólk í vanda   og allt þetta til að bjarga bönkunum. Vilji er vandamálið að mati Marmots, pólitískur vilji er vandamálið. Ekki þekkingarleysi eða peningaleysi.

Marmot lagði áherslu á velferð barna. Rannsóknir sýna að velferð barna skipta miklu máli fyrir framtíðarhorfur þeirra. Við eigum að sjá til þess að jöfnuður ríki þegar kemur að börnunum okkar. Það sem gerist snemma í lífi barna skiptir miklu máli fyrir framtíð þeirra og spáir fyrir um hvernig þeim mun reiða af í lífinu. Velferð þeirra er framtíðarspá um vanda fólks og ójöfnuð í samfélaginu. Ef við sjáum ekki til þess að þau sitji við sama borð varðandi grunnþarfir þá leiðir það af sér framtíðarvanda sem kostar samfélagið meira fjármagn. Það þarf að veita börnum það umhverfi sem þarf til að þau blómstri. Eins og oft hefur komið fram í rannsóknum hérlendis þá er samvera við fjölskyldu það sem skiptir börn mestu máli þegar kemur að forvörnum.

En hvað skal gera? Það sem kom sterkt fram á þessari ráðstefnu og er í anda Guðjóns heitins. Það er ekki nóg að leysa vandann með því að senda einn fulltrúa í skólana til að fræða. Það er ekki nóg að gefa fátækum barnafjölskyldum að borða. Það þarf margvíslegar aðgerðir á öllum stigum samfélagsins sem byggja á þekkingu og rannsóknum um aðstæður á hverju svæði fyrir sig. Það þarf að setja fram heilræna stefnu sem snertir alla þætti samfélagsins og gengur þvert á allt sem gert er. Það þarf samtakamátt. Það kallast stefna um lýðheilsu.

Fleiri greinar um erindin sem voru flutt á þessari frábæru ráðstefnu eru væntanlegar á næstunni.

Með lýðheilsukveðju,
Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir, formaður Félags lýðheilsufræðinga