Ingibjörg er fædd árið 1974. Hún lauk BS prófi í matvælafræði frá HÍ árið 1997 og MS prófi i næringarfræði tveimur árum og varði þá hluta námstímans við Konunglega landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn. Hún lauk doktorsprófi í næringarfræði árið 2003. Meistararitgerð Ingibjargar fjallaði um næringarástand sjúklinga en doktorsverkefni hennar um næringu og vöxt ungbarna og tengsl við áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum síðar á lífsleiðinni. Fyrir doktorsrannsóknir sínar hlaut Ingibjörg sérstakar viðurkenningar, bæði hérlendis og erlendis.
Ingibjörg tók virkan þátt í uppbyggingu og skipulagi Rannsóknastofu í næringarfræði við HÍ og Landspítala auk þess að sinna kennslu. Hún átti stóran þátt í uppbyggingu Matvæla- og næringarfræðideildar HÍ og varð prófessor við þá deild árið 2010. Á síðasta ári tók hún við starfi forstöðumanns við Rannsóknastofu í næringarfræði, en því fylgir að hún er einnig yfirnæringarfræðingur Landspítala Háskólasjúkrahúss.
Ingibjörg hefur stýrt og tekið þátt í fjölda verkefna sem styrkt hafa verið af innlendum og erlendum rannsóknasjóðum, auk þess að hafa átt sæti í ótal sérfræðihópum. Rannsóknir Ingibjargar fjalla einkum um næringu ungbarna, barna, unglinga og fullorðinna, en taka einnig til afmarkaðra hópa eins og barnshafandi mæðra og sjúklinga. Á síðasta ári hlaut Ingibjörg þrjá nýja styrki til alþjóðlegra rannsóknaverkefna. Hún er verkefnisstjóri íslenska hluta Evrópuverkefnisins Mood-Food sem fjallar um tengls næringarástands og þunglyndis, en umfang þess er um 1,4 milljarðar króna. Hún er íslenskur verkefnisstjóri norræna rannsóknaverkefnisins ProMeal, en markmið þess er að kanna þýðingu skólamáltíða fyrir heildarmataræði grunnskólabarna sem og einbeitingu þeirra og frammistöðu í skóla. Loks hlaut hún styrk úr Rannsóknasjóði til að gera næringarfræðilega rannsókn á sjúklingum með langvinna lungnateppu, í samstarfi við King‘s College í London og Herlev spítala í Danmörku.
Ljóst er að rannsóknir Ingibjargar hafa haft og munu hafa gríðarleg áhrif á skilning okkar á tengslum heilsu og næringar, auk þess að hafa bein áhrif á mótun næringarviðmiða ólíkra hópa í samfélaginu. Ingibjörg þykir afburða kennari og er ötul við að miðla þekkingu til almennings, m.a. með ritun greina og opnum fyrirlestrum. Það er álit dómnefndar að Ingibjörg uppfylli öll viðmið hennar og sé því verðugur handhafi Hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs 2014.
Um Hvatningarverðlaunin
Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs eru veitt vísindamanni sem snemma á ferlinum þykir hafa skarað framúr og skapi væntingar um framlag í vísindastarfi er treysti stoðir mannlífs á Íslandi. Verðlaunin, sem nú eru 2 milljónir króna, hafa verið veitt frá árinu 1987, í fyrsta sinn á 50 ára afmæli atvinnudeildar Háskóla Íslands. Markmiðið með veitingu Hvatningarverðlaunanna er að hvetja vísindamenn til dáða og vekja athygli almennings á gildi rannsókna og starfi vísindamanna.