Kári Steinn Karlsson úr ÍR varð í 19. sæti í Rotterdammaraþoninu í morgun. Hann hljóp á 2:19.17 klst sem er 2 mín frá hans besta síðan í Berlínarmaraþoninu árið 2011. Tíminn í dag er jafnframt annar besti tíminn sem Íslendingur hefur náð í heilu maraþoni.
Þetta er fyrsta maraþonið sem Kári Steinn hleypur eftir Ólympíuleikana í London. Hann keppti á HM í hálfu maraþonið fyrir hálfum mánuði síðan og setti þá nýtt Íslandsmet þegar hann kom í mark á 65:12 mín þrátt fyrir að detta í hlaupinu þegar annar keppandi hrasaði fyrir framan hann. Það er því frekar stutt á milli þessara tveggja viðburða en Kári Steinn er greinilega að þola það vel. Hann er því á góðri siglingu og stefnir á að hlaupa næsta maraþon á EM í Zurich í Swiss í sumar.