Magnús Jóhannsson læknir hjá Embætti landlæknis, segir ekki hafa verið sýnt fram á með vönduðum klínískum rannsóknum, að hómópatískar remedíur geri gagn.
Magnús segir að grunnur að hómópatíu hafi verið lagður fyrir rúmum 200 árum og þá einkum vegna þess hversu vanmáttugir læknar voru á þeim tíma. Hómópatía nútímans byggir að miklu leyti á því sama og þá.
Um síðustu helgi svaraði Organon, fagfélag hómópata á Íslandi, fyrirspurn frá lesanda á spyr.is um hvort virkni hómópatíu remedía, væri vísindalega sönnuð. Í svari þeirra kemur fram að vísindamenn um allan heim hefðu gert fjölmgarar rannsóknir á hómópatíu og virkni hennar. Vísað er í tvær rannsóknir í svarinu.
Landlæknisembættið telur málin hins vegar ekki svona skýr.
Í svari Magnúsar Jóhannssonar læknis hjá Embætti landlæknis, kemur fram að vísindalegar rannsóknir á hómópatíu, séu ekki viðurkenndar.
Spurt er:
Hefur virkni hómópatíuremedía verið vísindalega sönnuð og þá hvernig?
Magnús Jóhannsson læknir hjá Embætti landlæknis:
Grunnur var lagður að hómópatíu fyrir rúmum 200 árum og má færa rök fyrir því að ástæðan hafi einkum verið hversu vanmáttugir læknar þeirra tíma voru.
Hómópatar nútímans beita í stórum dráttum sömu aðferðum og notaðar voru fyrir 200 árum.
Á sama tíma hafa læknavísindin gengið í gegnum margar byltingar og framfarirnar eru gríðarlegar.
Nú er hægt að fyrirbyggja, lækna eða draga úr einkennum fjölda sjúkdóma sem áður voru ólæknandi.
Meðal annars vegna þessarar auknu þekkingar hefur meðalaldur hækkað mikið og lífsgæði batnað.
Framfarir í læknisfræði byggja fyrst og fremst á því að gerðar eru rannsóknir þar sem beitt er aðferðarfræði sem hefur verið að þróast s.l. 100-150 ár og almenn sátt er um í vísindasamfélaginu.
Þessi aðferðarfræði er í stórum dráttum sú sama í öllum greinum vísinda.
Meðferðarúrræðum er ekki beitt fyrr en búið er að sýna fram á að þau geri gagn og hætt er að notast við meðferðarúrræði ef nýjar rannsóknir sýna að þau uppfylli ekki settar kröfur.
Ef við tökum lyf sem dæmi þá fær ekkert nýtt lyf markaðsleyfi fyrr en búið er með klíniskum rannsóknum að sýna fram á virkni sem þarf að vera a.m.k. jafn góð og eldri úrræði en mörg lyf falla á þessum prófum og komast aldrei á markað.
Á sama hátt eru lyf tekin af markaði ef í ljós kemur að þau uppfylla ekki kröfur um virkni og öryggi.
Þessum viðurkenndu aðferðum við klíniskar rannsóknir hefur verið beitt í fjölda rannsókna á hómópatíu og hafa þær í stuttu máli ekki sýnt virkni á sannfærandi hátt.
Einnig hefur verið gerður fjöldi rannsókna á hómópatíu þar sem ýmis konar frávik eru frá viðurkenndum aðferðum en út frá niðurstöðum slíkra rannsókna er ekki hægt að draga öruggar ályktanir.
Stutta svarið er því að ekki hafi verið sýnt fram á með vönduðum klíniskum rannsóknum að hómópatískar remedíur geri gagn.
Þessu til viðbótar má benda á að hugmyndafræði hómópatíunnar á sér engan vísindalegan grunn og er reyndar í veigamiklum atriðum í andstöðu við ýmis þekkt lögmál efnafræði og eðlisfræði.
Umfjöllun um rannsóknir á hómópatíu er víða að finna en ítarlega og vel unna umfjöllun er að finna í bókinni „Trick or treatment“ eftir Simon Singh og Edzard Ernst.
Einnig má benda á ágæta umfjöllun um hómópatíu á netinu og má þar nefna vefina visindavefur.is og quackwatch.com.
Bestu kveðjur,
Magnús Jóhannsson læknir
Embætti landlæknis