Á kynningarfundinum fjallaði Birgir Jakobsson, landlæknir um hvers vegna við tökum saman lýðheilsuvísa, Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri áhrifaþátta heilbrigðis hjá Embætti landlæknis segir frá lýðheilsuvísum tengdum lifnaðarháttum og Sigríður Haraldsdóttir, sviðsstjóri heilbrigðisupplýsinga hjá Embætti landlæknis fjallar um lýðheilsuvísa tengdum heilsu og sjúkdómum. Þá sagði Kristinn J. Reimarsson sviðsstjóri samfélagssviðs Akureyrarbæjar frá lýðheilsuvísum og Heilsueflandi samfélagi á Akureyri og Guðný Friðriksdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands útskýrði hvernig heilbrigðisþjónustan getur notað þá. Kynningarfundinum lauk með pallborðsumræðum.
Embætti landlæknis hefur í vetur verið með fjölmargar vinnustofur um landið undir formerkjum Heilsueflandi samfélags og Heilsueflandi skóla. Þar eru lýðheilsuvísar m.a. notaðir til að greina áherslur, styðja við skóla og sveitarfélög sem vilja skapa aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Heilsa og líðan geta verið breytileg eftir þáttum sem ekki er hægt að breyta en einnig þáttum sem hafa má áhrif á. Þar má nefna lifnaðarhætti, samskipti við fjölskyldu og vini auk lífsskilyrða eins og menntun, atvinnu, húsnæði, heilbrigðis- og félagsþjónustu.
Mikil vinna liggur að baki því vali sem birtist í Lýðheilsuvísum og það er von embættisins að þeir muni nýtast bæði í stefnumótun og starfi almennt. Við valið er sjónum fyrst og fremst beint að þeim áhrifaþáttum heilsu og líðanar sem fela í sér tækifæri til heilsueflingar og forvarna. Það er gott að hafa í huga að hvert svæði hefur sína styrkleika og áskoranir.
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir sviðsstjóri
Sigríður Haraldsdóttir sviðsstjóri
Frá Landlækni.