Matvæla- og lyfjaeftirlitið í Bandaríkjunum (FDA) setti allt á annað endann nýlega með því að setja spurningamerki við það að vægt aspirín (e. baby aspirin eða magnýl eins og við þekkjum það) sé fyrirbyggjandi gegn hjartasjúkdómum. Læknasamfélagið er þó ekki endilega sammála og ráðlagt er að leita ráðleggingja hjá lækni. Boston Globe fjallaði um málið á dögunum.
Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) neitaði beiðni lyfjafyrirtækisins Bayer HealthCare þann 2. maí um að setja merkingar á umbúðir lyfsins sem myndu segja að lyfið komi í veg fyrir fyrsta hjartaáfall hjá þeim sem læknar telja vera í miklum áhættuhópi.
Þann 5. maí sendi FDA frá sér yfirlýsingu fyrir neytendur þar sem kom fram að „gögnin styðja ekki notkun aspiríns (magnýl) sem fyrirbyggjandi lyf fyrir fólk sem hefur ekki áður fengið hjartaáfall, heilablóðfall eða hjarta- og æðasjúkdóma“.
Þeir vilja meina að hliðarverkanir, eins og magasár og heilablæðing eða blæðing í meltingarveginum vegi þyngra heldur en ávinningur þess að taka lyfið, jafnvel hjá þeim sem eru með sykursýki, reykja, eða eru með aðra áhættuþætti fyrir hjartasjúkdóma.
Þeir leggja þó jafnframt áherslu á það að hjá þeim sem hafa áður fengið hjartaáfall eða heilablóðfall, þá vegi ávinningur þess að taka aspirín (magnýl) mun þyngra en hætturnar og sé því ráðlagt að taka það. Þetta er eitthvað sem allir eru sammála um og kemur fram á merkingum lyfsins.
Afstaða FDA gegn því að nota aspirín (magnýl) sem fyrirbyggjandi fyrir hjartaáfall og heilablóðfall er þvert á það sem margir læknahópar mæla með. Amerísku Hjartasamtökin og Amerísku Sykursýkissamtökin mæla með daglegum skammti af vægu aspiríni (magnýl)fyrir þá sem eru með sykursýki og eru einnig með aðra áhættuþætti hjartasjúkdóma.
Árið 2010 þá bökkuðu þessir hópar frá fyrri ráðleggingum um að flestir sem væru með sykursýki ættu að taka aspirín. Í staðinn mældu þeir aðeins með því sem fyrirbyggjandi fyrir þá sem væru í miklum áhættuhópi á að fá hjartaáfall og heilablóðfall, samkvæmt Dr. M. Sue Kirkman, innkirtlasérfræðingi við Læknaháskólann í Norður Karólínu sem er einn af höfundum viðmiðanna. Þetta á við um karla yfir fimmtugt og konur yfir sextugt sem eru með sykursýki og allavega einn annan áhættuþátt eins og of háan blóðþrýsting.
Hópur sem kallast The US Preventive Services Task Force og er stjórn lækna sem skipuð er af ríkinu, mælir með að menn á aldrinum 45 til 79 ára taki aspirín (magnýl) sem fyrirbyggjandi fyrir fyrsta hjartaáfall og konur á aldrinum 55 til 79 ára taki það sem fyrirbyggjandi fyrir fyrsta heilablóðfall ef læknirinn þeirra metur það sem svo að ávinningurinn vegi þyngra en hættan á blæðingu.
Ákveðnir þættir eins og krónískir verkir í þörmum eða fyrri magasár gætu til dæmis aukið líkurnar á blæðingu í maga og þar með gert það of hættulegt fyrir einstaklinginn að taka aspirín (magnýl) daglega. Regluleg inntaka bólgueyðandi lyfja eins og íbúprófen getur einnig valdið aukinni hættu á blæðingu.
„Ég get séð að þetta getur verið ruglandi fyrir fólk“ segir Dr. JoAnn Manson, yfirmaður deildar fyrirbyggjandi lækninga við Brigham and Women‘s Hospital sem aðstoðaði við klínískar prófanir á notkun aspirín sem fyrirbyggjandi gegn hjartaáfalli. Hún segir að hún haldi að afstaða FDA hnekkji ekki viðmiðum læknasamfélagsins.
Einstaklingar sem eru nú þegar að taka aspirín (hjartamagnýl) sem fyrirbyggjandi ættu ekki að hætta að taka lyfið án þess að tala fyrst við lækninn sinn þar sem það getur verið hættulegt samkvæmt Dr. Manson. Hún segir þó að ákvörðun FDA að hafna beiðni lyfjafyrirtækisins Bayer um að breyta merkingum á lyfinu hafi verið skynsamleg.
Hún segir að það geri það skýrt fyrir almenningi að þeir eigi ekki að taka aspirín (hjartamagnýl) daglega sem fyrirbyggjandi án þess að vera undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanns. Þeir sem taka upp dollu af aspirín og lesa á miðanum að hægt sé að nota það sem fyrirbyggjandi gegn hjartaáfalli geta ályktað, ranglega, að það sé gott fyrir þá að taka það sama hvort þeir séu í áhættuhópi eða ekki. Margir halda að lyf sem ekki eru lyfseðilsskild séu án hættulegra aukaverkanna, en það er yfirleitt ekki tilfellið, þá sérstaklega ekki þegar þau eru tekin að staðaldri.
Dr. Manson segir að reglulega inntaka aspiríns (hjartamagnýl) sem fyrirbyggjandi þurfi að vera einstaklingsmiðuð og persónubundin. Ef það er notað vítt og breytt af heilbrigðum einstaklingum sem fyrirbyggjandi gegn hjartasjúkdómum, þá gæti það á endanum leitt til fleiri vandamála heldur en ávinnings.
FDA heldur því fram að það vanti gögn sem styðji það að notkun aspirín (hjartamagnýl) leiði til teljandi færri hjartaáfalli hjá eldra fólki í Bandaríkjunum sem séu ekki með hjartasjúkdóm. Sandy Walsh segir þó að læknar geti með þokkalegum hætti ályktað út frá rannsóknum að fyrir ákveðna hópa sem eru í mikilli hættu þá sé ávinningurinn meiri en áhættan.
Hún segir að aðal skilaboðin sem taka megi úr þessari umræðu sé að einstaklingar eigi alltaf að vera í sambandi við heilbrigðisstarfsmann varðandi það hvort þeir eigi að taka aspirín sem fyrirbyggjandi gegn hjartaáfalli og heilablóðfalli, eða ekki.
Þýtt og endursagt af Boston Globe.
Hanna María Guðbjartsdóttir.
Heimild: hjartalif.is