Var það ásamt fjölskyldu sinni á ferðalagi erlendis þar sem mislingar ganga en kom aftur til landsins í lok febrúar sl. og veiktist um það leyti, með hita, niðurgangi og uppköstum. Leitaði til bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins í lok febrúar til meðferðar og rannsókna. Barnið var svo lagt inn á Barnaspítalann en útskrifaðist í byrjun mars. Daginn sem barnið útskrifaðist fékk það hita að nýju með hósta, kvefi og útbrotum. Er nú á góðum batavegi heima hjá sér.
Mislingar voru skæðir á Íslandi einkum á 19. öld og fram eftir 20. öld. Mjög dró úr nýgengi mislinga eftir að skipulegar bólusetningar hófust gegn sjúkdómnum við 2 ára aldur árið 1976, og var síðasti faraldurinn á Íslandi 1977. Tilhögun bólusetninga er um þessar mundir með þeim hætti að börn eru bólusett fyrst við 18 mánaða aldur og síðan endurbólusett 12 ára. Síðast greindist mislingatilfelli hér á landi árið 1996.
Allt að 95% barna hér á landi eru bólusett gegn mislingum ásamt rauðum hundum og hettusótt, sem er eitt hæsta hlutfall bólusettra barna í Evrópu. Því er ekki búist við að mislingar geti náð mikilli útbreiðslu og valdið stórum faröldrum hér á landi. En eins og alltaf mágeraráð fyrir að óbólusettir einstaklingar geti smitast af mislingum hér á landi.
Á síðustu 12 mánuðum hafa meir en 10 þúsund tilfelli af mislingum greinst í Evrópu, þar af 17 í Danmörku, 52 í Svíþjóð og 8 í Noregi. Utan Evrópu og Bandaríkjanna eru mislingar víða landlægir og mislingafaraldur geisar t.d. um þessar mundir á Filippseyjum.
Mislingaveiran er mjög smitandi og berst milli manna með úða frá öndunarfærum (t.d. hósta og hnerra). Veiran getur lifað og valdið smiti í allt að tvær klukkustundir eftir að hún berst út í andrúmsloftið. Einkenni mislinga byrja að koma fram um 10–12 dögum eftir smit og geta verið mismikil eftir einstaklingum. Þau byrja oftast með flensulíkum einkennum, þ.e. hita, nefrennsli, sviða í augum, hósta, bólgnum eitlum og höfuðverk. Á þriðja eða fjórða degi veikindanna koma í flestum tilfellum fram útbrot sem ná yfir allan líkamann og standa í 3–4 daga eða þar til sjúkdómurinn fer að réna.
Mislingaveiran getur stundum valdið alvarlegum sjúkdómi og leitt til eyrna- eða lungnabólgu, kviðverkja, uppkasta, niðurgangs og heilabólgu. Mislingar eru mest smitandi dagana áður en útbrotin koma fram en eftir það dregur úr smitlíkum næstu fjóra dagana.
Landspítalinn hefur haft samband við foreldra óbólusettra barna sem sem hugsanlega gætu hafa smitast af viðkomandi barni og býður þeim nauðsynlega þjónustu og ráðleggingar. Barnið er ekki í dagvistun og aðrir fjölskyldumeðlimir eru bólusettir.
heimildir: landlaeknir.is