Beinþynning er mjög sterkur áhættuþáttur alvarlegra beinbrota í lærlegg, hryggsúlu og víðar. Um 40% íslenskra kvenna og 20% karla hafa við 75 ára aldur hlotið slík brot. Beinþéttni má mæla með sérstöku tæki sem notar röntgengeisla til að meta magn steinefna beins. Tæknin kallast DXA (Dual-energy X-ray Absorptiometry). Tækið sem Mjólkursamsalan hefur nú fært Landspítala að gjöf er fullkomið mælitæki af gerðinni Hologic Horizon. Þetta nýja nákvæma tæki veldur straumhvörfum í þessari klínísku þjónustu þar sem nú er hægt að gera nýjar tegundir mælinga, jafnvel meta mögulegar aukaverkanir af lyfjum og bera saman ný og eldri gögn með öryggi. Geislaskammtur er samt minni en áður og rannsóknin fljótlegri. Hugbúnaðurinn er einnig tæknilega fullkominn, getur metið niðurstöður sjálfvirkt og með framförum í rafrænni miðlun gagna Landspítalans (Heilsugátt) fær læknir sjúklingsins niðurstöðuna mun fyrr á sitt borð.
Rafn Benediktsson yfirlæknir segir að þetta nýja tæki valdi straumhvörfum: „Við erum afskaplega þakklát Mjólkursamsölunni og landsmönnum öllum sem hjálpuðu til við að fjármagna þetta mikilvæga tæki. Við höfum beðið eftir því í mjög langan tíma.“
Páll Matthíasson forstjóri segir það alltaf jafn ánægjulegt þegar samstarf Landspítala og velunnara skili jafn ríkulegum ávexti og með þessu mikilvæga tæki: „Landspítali er þjóðarsjúkrahúsið og það er afskaplega áríðandi að við getum veitt víðtæka þjónustu við landsmenn alla. Við erum mjög ánægð að geta loks bætt þessa þjónustu sem lengi hefur verið barist fyrir.“
D-vítamínbætt mjólk til að styrkja kaup á beinþéttnimæli
Heimild: landspitali.is