Fara í efni

Mögnuð íþróttastemming á Akranesi!

Veturinn hefur verið aldeilis frábær. Nóg að gera, margt jákvætt og gott ef Íslendingar eru ekki farnir að átta sig á því að heilsa hvers og eins er undir honum sjálfum komin (a.m.k. að mestu leyti).
totaliceland.com
totaliceland.com

Metfjöldi fyrirlestra var hjá mér þennan veturinn. Rúmlega 40 talsins urðu þeir og má því reikna með að ég hafi náð að spjalla við um 3000-4000 manns. Þar á meðal voru fyrirlestrar hjá Krabbameinsfélagi Austurlands, Marel, Hafnarfjarðarbæ, tryggingafélaginu Verði, Grunnstoð Garðabæjar, íþróttafélögunum Fram, Fylki, ÍA, FH og mörgum fleirum.

Nokkrir standa upp úr eins og gengur og gerist. Fyrirlestrarnir sem ég hélt hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins voru dúndur skemmtilegir og frábær þátttaka í þeim öllum. Ég skil núna að einhverju leyti af hverju slökkviliðsmenn leggja sig í hættu nánast í hverri viku fyrir ekki hærri laun en raunin er; þarna er frábær hópur sem starfar saman. Það var virkileg tilhlökkun að spjalla við þau í þessi 8 skipti sem ég fór þangað.

Tryggingafélagið Vörður er greinilega frábært fyrirtæki að starfa hjá. Þvílíkt skemmtilegur fyrirlestur og einstaklega jákvæð þátttaka starfsmanna.

Síðustu þrír fyrirlestrarnir voru svo alveg magnaðir.

Rúmlega 100 krakkar og foreldrar mættu á vegum Barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildar FH. Magnað að halda fyrirlestur þar sem maður gat séð áhugann glampa í augum þeirra sem á hlýddu. Í FH eru krakkar sem ætla sér langt – svo mikið er víst!

Á þriðjudagskvöld hélt ég tvo fyrirlestra á Akranesi. Fyrst voru stelpur á aldrinum 14+. Síðar um kvöldið voru það svo strákar á sama aldri.

Þarna voru saman komnir, á hvorum fyrirlestri fyrir sig, um 100 krakkar ef ég taldi rétt. Þau voru áhugasöm og eru greinilega með markmiðin sín á hreinu. Virkilega gaman að spjalla við krakka sem eru með skýra sýn á hvað þau vilja verða þegar fram í sækir.

Það sem mig langar þó til að nefna varðandi Akranes er það að það er rannsóknarefni hvurslags íþróttaáhugi er í þessum bæ! Alveg magnað að um 7% bæjarfélagsins æfi og stundi knattspyrnu (ef ég skildi þetta rétt). Þegar ég spjallaði við krakkana, foreldra og þjálfara þá fylltist ég eldmóði, eldmóði til að gera það sem ég er að gera enn betur. Það er alveg magnaður íþróttaandi þarna upp á Skaga og þessi andi er bráðsmitandi! Ég þekki ekkert sérlega marga þarna upp frá en hjónakornin Þórður Guðjónsson og Anna Lilja Valsdóttir tel ég til vina minna og það er magnaður kraftur í þeirri fjölskyldu! Ég fæ ekki betur séð en þegar þau setja fingurna sína á hluti þá gerist þeir! Sannkölluð ofurhjón hér á ferð og ótrúlega gaman að hafa unnið með þeim núna tvö ár í röð!

Á sínum tíma skrifaði ég pistil sem hljómaði eitthvað á þessa leið: „Eru Seltyrningar eitthvað öðruvísi?“ en ég held það sé nú ekki úr vegi að skoða hvað Skagamenn eru að gera rétt þegar kemur að heilbrigðum lífsstíl og heilsusamlegu mataræði og reyna að læra af þeim og yfirfæra yfir á önnur sveitarfélög.

Það er alveg á kristaltæru að við þurfum að líta upp á Skaga til að sjá hvernig hægt er að gera þegar kemur að uppbyggingu á íþróttastarfi!

Steinar B.,
næringarfræðingur
www.steinarb.net

Þessi pistill er eign höfundar og má hvorki afrita hann né nota efni hans án leyfis.