Fara í efni

Niðurstöður frá Norræna bólusetningaþinginu 28. og 29. apríl 2016

Dagana 28. og 29. apríl 2016 var haldið Norrænt bólusetningaþing í Reykjavík.
Niðurstöður frá Norræna bólusetningaþinginu 28. og 29. apríl 2016

Dagana 28. og 29. apríl 2016 var haldið Norrænt bólusetningaþing í Reykjavík. 

Markverðar niðurstöður þingsins voru meðal annars:

  • Að þátttaka stúlkna í bólusetningu gegn leghálskrabbameini í Danmörku hefur minnkað úr 90% í 30% í kjölfar frétta um meintar aukaverkanir bóluefnisins Gardasil. Þessar aukaverkanir eru einkum þreyta, slappleiki og óljósir vöðvaverkir.

    Danir eru eina þjóðin þar sem tilkynnt hefur verið um viðlíka fjölda aukaverkana en í heiminum öllum hafa um 80 milljónir einstaklinga verið bólusettir. Rannsókn í Danmörku hefur leitt í ljós að þær stúlkur sem kvörtuðu um ofangreindar aukaverkanir voru með svipuð einkenni fyrir bólusetninguna og því er tengingin við bóluefnið óljós.

    Lyfjastofnun Evrópu gaf út yfirlýsingu í nóvember 2015 um að engin merki væru um að Gardasil bóluefnið tengdist alvarlegum aukaverkunum. Á Íslandi hefur hins vegar bóluefnið Cervarix verið notað hjá 12 ára stúlkum frá 2011 og yfirliði og þreytu verið lýst hjá einungis örfáum stúlkum í kjölfar bólusetningar.

    Vísindarannsóknir á bóluefnunum Gardasil og Cervarix sýna að bóluefnin draga verulega úr forstigsbreytingum leghálskrabbameins og Gardasil dregur auk þess verulega úr kynfæravörtum.
     
  • Að vafasamt er að almenn bólusetning gegn lifrarbólgu B sé kostnaðarhagkvæm á Norðurlöndunum og ekkert Norðurlandanna hefur ákveðið að hefja almenna bólusetningu gegn lifrarbólgu B.
     
  • Að almenn bólusetning hjá börnum gegn árlegri inflúensu getur dregið verulega úr útbreiðslu sýkingarinnar í samfélaginu. Einungis Finnar hafa boðið upp á almenna bólusetningu hjá börnum gegn árlegri inflúensu en þátttakan ekki verið góð.
     
  • Að almenn bólusetning barna gegn pneumókokkasýkingum hefur verið mjög árangursrík í öllum Norðurlöndunum og hún komið í veg fyrir fjölda alvarlegra og minna alvarlegra sýkinga af völdum pneumókokka. Á Íslandi hefur þessi bólusetning verið við lýði frá 2011.
     
  • Að fyrirkomulag heilsufarsskoðana hjá hælisleitendm eru með mjög svipuðu sniði á öllum Norðurlöndunum.

Næsta Norræna bólusetningarþing verður haldi í Finnlandi 2018.

Sóttvarnalæknir

Af vef landlaeknis.is