Kaffihúsið heitir Orange Café - ESPRESSO BAR, og segja má að hér sé um gott viðbragð við skorti á góðum kaffihúsum við þessa fjölfjörnu götu. Ármúlinn og göturnar í kring hafa í áratugi iðað af verslun og viðskiptum og nú er loksins kominn notalegur áningarstaður sem hægt er að tylla sér inn á í amstri dagsins.
Hollusta og heilbrigði hafa frá upphafi verið í hávegum hjá Orange, sem býður til dæmis leigjendum sínum upp á ferska ávexti auk þess sem ókeypis jóga-tímar eru í boði í Ármúlanum í hádeginu á fimmtudögum og eru öllum opnir. Þá kemur nuddari reglulega í húsið og hnoðar spennuna úr mannskapnum þar. Þá er Orange með skokkhóp sem tekur góðan hlaupatúr um hverfið á hverjum miðvikudegi.
Hollustuhugsjónin setur einnig mark sitt á kaffihúsið en þar er hægt að fá úrval af frábærum salötum og heilsudrykkjum. „Við leggjum mikinn metnað í salötin okkar og efumst ekki um að hróður þeirra eigi eftir að berast víða,“ segir Tómas Hilmar Ragnarz, framkvæmdastjóri Orange. „Við erum líka með geggjaða djúsa úr úrvals hráefnum og gestir okkar geta hannað sína eigin djúsa ef þeir vilja.“
Orange Café býður að sjálfsögðu upp á alls konar hressingu, beyglur, croissant og samlokur en hollustan er áberandi á matseðlinum þar sem meðal annars má finna Chia-hafragraut, súrdeigsbrauð, heimalagað rauðrófu- og berjadrykki, próteindrykki og hressandi engiferskot.
„Við opnum klukkan 8 á morgnana og það er góð byrjun á deginum að koma við í staðgóða morgunhressingu hjá okkur. Við bjóðum til dæmis upp á hafragraut og gríska jógúrt ásamt grænum djúsum og sterku engiferskoti fyrir þá sem vilja,“ segir Tómas Hilmar og bætir við að hádegisverðamatseðillinn sé í stöðugri þróun. Alla virka daga er boðið uppá fisk dagsins og aðra yndislega rétti í samstarfi við Bergson Mathús „Þar fyrir utan bjóðum við upp á samlokur, croissant, beyglur með hráskinku, hvítlauk og fleira góðgæti, kökur og handgert eðalkonfekt frá belgíska framleiðandanum Leondias, svo eitthvað sé nefnt.“
Café Orange er einnig hefðbundið kaffihús og bar þar sem lagað er eðal kaffi og boðið upp á úrval af tei. Ýmsar tegundir bjóra og sérinnflutt léttvín í hæsta gæðaflokki eru einnig á boðstólum.
„Við leggjum mikið upp úr notalegri stemningu og að Café Orange sé þægilegur viðkomustaður í amstri dagsins, tilvalið til funda, til að tylla sér með tölvuna og tengjast ókeypis interneti eða bara til þess að slaka aðeins á og hlaða batteríin.
Við leggjum upp með að Café Orange sé frábær byrjunarreitur á hverjum degi og þægileg endastöð að kvöldi dags og erum með „happy hour“ frá 16.30 – 19.00 alla daga.