Fara í efni

Risastór heilsumarkaðsherferð sem byggir á sælgæti?

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að ný „heilsuvara“ er komin á markað. Varan heitir Aktív próteinbitar og er markaðssetning vörunnar með vísan í að hún henti fólki sem hreyfir sig mikið (er semsagt aktíft).
Risastór heilsumarkaðsherferð sem byggir á sælgæti?

En reynum nú að átta okkur á því hvort Aktív próteinbitar sé vara sem henti vel þeim sem hreyfa sig mikið og hvort hún sé „handhæg næringarlausn“ nú eða „afbragðs kostur til að seðja hungrið á heilbrigðan og gómsætan hátt“ eða „geti haft hjartverndandi áhrif“ (texti innan gæsalappa tekinn af umbúðum vöru eða af Facebook síðu Aktív).

Auðveldast er, þar sem næringargildismerkingar á Íslandi eru ekki upp á marga fiska, að bera saman matvæli með því að bera þau saman í 100 grömmum (gr.) og svo heppilega vill til að Aktív kemur í 100 gr. pokum.

AKTIV_tafla_samanburdur

Í fljótu bragði þá verður ekki annað séð en að eini munurinn á Aktív og sælgætinu sé magn próteins en 20 gr. af próteinum má finna í 100 gr. af Aktív en mest 9 gr. í 100 gr. af hinum vörunum.

Prótein er mikilvægt efni fyrir líkama okkar en það er erfitt að sjá að sælgæti, stútfullt af sykri, verði að hollustuvöru við það eitt að hafa viðbætt prótein!

Geta þessar vörur fallið undir „handhæga næringarlausn“ eða verið „afbragðs kostur til að seðja hungrið á heilbrigðan og gómsætan hátt“? Eru þessar vörur góður kostur á milli mála þá sérstaklega í ljósi þess að næringarfræðingar og fleiri hafa lagt á það áherslu að minnka magn næringarsnauðra matvæla í fæðunni? Erum við að gera rétt með þessu óhóflega magni af sykri þegar viðbættur sykur ætti að vera haldið í lágmarki?

Samkvæmt reglum um merkingar á matvælum skal ekki gefa til kynna að vara hafi eiginleika sem hún hefur ekki. Í reglugerð nr. 503/2005 um merkingu matvæla, 5. gr. segir orðrétt:

Merking skal ekki vera blekkjandi fyrir kaupanda eða móttakanda, einkum að því er varðar sérkenni matvælanna, nánar tiltekið eðli þeirra, auðkenni, eiginleika, tegund, samsetningu, þyngd, geymsluþol, uppruna, aðferð við gerð eða framleiðslu. Óheimilt er að:
1. eigna matvælum áhrif eða eiginleika sem þau hafa ekki,
2. gefa í skyn að matvæli hafi tiltekin sérkenni, ef öll sambærileg matvæli hafa í raun þessi sérkenni,
3. eigna matvælum þá eiginleika að fyrirbyggja eða vinna á sjúkdómum manna, hafa lækningarmátt eða að vísa til þess háttar eiginleika.

Bönn og takmarkanir, sem um getur í 2. og 3. mgr. gilda einnig um kynningu matvæla, einkum hvað varðar lögun, útlit eða umbúðir, umbúðaefni sem notuð eru, hvernig þeim er komið fyrir og við hvaða aðstæður þau eru höfð til sýnis*, svo og auglýsingar.

Mín ósk er sú að fyrirtæki hætti að ljúga að neytendum þegar kemur að hollustu matvæla. Framleiðsla, pökkun, sala, markaðssetning og allt sem snýr að vöru fyrirtækisins er á ábyrgð fyrirtækisins. Við neytendur erum ekki heimsk og því á ekki að koma fram við okkur eins og við séum það.

Óvönduð og villandi markaðssetning vöru gerir ekki annað en að láta fólk á endanum hætta að kaupa vöruna!

Steinar B.,
næringarfræðingur
www.steinarb.net

Þessi pistill er eign höfundar og má hvorki afrita hann né nota efni hans án leyfis.