Unnin eða verksmiðjuframleidd matvæli, og matvæli flutt langt að, hafa smám saman verið að ryðja hefðbundnum og svæðisbundnum matvælum úr vegi. Þessi þróun hefur átt sér stað víða um heim.
Hér á landi hafa fiskur og lambakjöt vikið að hluta fyrir kjúklinga- og svínakjöti. Minna er drukkið af mjólk og meira af gosi. Skyr og súrmjólk (með sykri, vissulega) viku fyrir jógúrt með viðbættum sykri og ávöxtum. Hafrar og rúgur viku fyrir maís (kornflögum) og hveiti (aðallega hvítu hveiti). Í staðinn fyrir kartöflur og rófur eru hrísgrjón orðin helsta meðlætið.
Fæðið sem tók yfir kallast vestrænt nútímafæði. Það er orkuþéttara og næringar- og trefjasnauðara en hefðbundið norrænt fæði. Það inniheldur meira af unnum kjötvörum, fínunnu mjöli og viðbættum sykri, fitu og salti en fæðið sem forfeður okkar lifðu á. Ýmsa lífsstílssjúkdóma sem hrjá okkur í dag má rekja til þessara breytinga auk hreyfingarleysis og ofneyslu (að borða of mikið miðað við orkuþörf).
Vissulega hafa líka orðið jákvæðar breytingar á mataræði okkar. Grænmeti og ávextir eru oftar á borðum okkar og smjörlíki vék fyrir jurtaolíum. Síðustu ár erum við farin að drekka meira vatn.
Fyrir heilsuna og umhverfið
Hefðbundin og svæðisbundin matvæli eru í mörgum tilvikum hollari en hin sem koma langt utan úr heimi og eru mikið unnin. Þar að auki er umhverfisvænna að borða mat úr héraði eða mat sem þarf ekki að flytja yfir hálfan hnöttinn.
Hefðbundið norrænt fæði hefur í faraldsfræðilegum rannsóknum verið tengt lægri dánartíðni (1) og lægri tíðni krabbameins í ristli og endaþarmi (2) en vestrænt nútímafæði.
Inngripsrannsóknir hafa einnig verið gerðar. Þá hafa hópar fólks borðað hefðbundið norrænt fæði um lengri eða skemmri tíma og verið bornir saman við aðra hópa sem borðuðu vestrænt nútímafæði. Þessar rannsóknir benda til þess að norræna fæðið hafi jákvæð áhrif á áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma og á dánartíðni (1,3,4).
Rúgur
Sem betur fer er matvælaframleiðsla að verða fjölbreyttari hér innanlands með gróðurhúsum og kornökrum. Bygg er það korn sem helst er ræktað hér en hafra og rúg þurfum við enn sem komið er að flytja inn. Þessar korntegundir eru þó ræktaðar í svölu loftslagi Norður-Evrópu á meðan hrísgrjón, maís og hveiti koma lengra að.
Rúgbrauð er dagleg fæða á hinum Norðurlöndunum enn í dag, en þegar nútíminn hélt innreið sína hér á landi minnkaði meðalneysla rúgs úr 152 g/dag (1930) í 8 g/dag (2011). Neysla hafra minnkaði líka en ekki nærri eins mikið, úr 25 g/dag (1961) í 13 g/dag (2011).
Í rúgi, höfrum og byggi er mikið af vítamínum, steinefnum og öðrum lífvirkum efnum. Rúgur er sérlega trefjarík korntegund.
Heilkorn og korntrefjar hafa endurtekið verið tengd minni hættu á sykursýki 2 (5) og ýmsum krabbameinum, ekki síst í meltingarvegi (6).
Með því að smella hér má sjá lista yfir ýmsar vörutegundir sem innihalda heilkorna rúg. Vörurnar teljast allar vera trefjaríkar (>6g trefjar í 100 g).
Mörgum hefur verið sagt að borða meiri trefjar en gengur illa að hlíta þeim ráðum. Rúgbrauð daglega er góður kostur í þeim efnum og eins og sést á listanum er fjölbreytnin mikil.
(1) Olsen, A., Egeberg, R., Halkjaer, J., Christensen, J., Overvad, K., Tjonneland, A. Healthy aspects of the Nordic diet are related to lower total mortality. J Nutr, 2011. 141(4): p. 639-44.
(2) Kyro, C., Skeie, G., Loft, S., Overvad, K., Christensen, J., Tjonneland, A., Olsen, A. Adherence to a healthy Nordic food index is associated with a lower incidence of colorectal cancer in women: the Diet, Cancer and Health cohort study. Br J Nutr, 2013. 109(5): p. 920-7.
(3) Adamsson, V., Reumark, A., Fredriksson, I.B., Hammarstrom, E., Vessby, B., Johansson, G., Riserus, U. Effects of a healthy Nordic diet on cardiovascular risk factors in hypercholesterolaemic subjects: a randomized controlled trial (NORDIET). J Intern Med, 2011. 269(2): p. 150-9.
(4) Brader, L., Uusitupa, M., Dragsted, L.O., Hermansen, K. Effects of an isocaloric healthy Nordic diet on ambulatory blood pressure in metabolic syndrome: a randomized SYSDIET sub-study. Eur J Clin Nutr, 2014. 68(1): p. 57-63.
(5) Priebe, M.G., van Binsbergen, J.J., de Vos, R., Vonk, R.J. Whole grain foods for the prevention of type 2 diabetes mellitus. Cochrane Database Syst Rev, 2008(1): p. Cd006061.
(6) Aune, D., Chan, D.S., Lau, R., Vieira, R., Greenwood, D.C., Kampman, E., Norat, T. Dietary fibre, whole grains, and risk of colorectal cancer: systematic review and dose-response meta-analysis of prospective studies. Bmj, 2011.343: p. d6617.
Anna Ragna Magnúsardóttir, næringarfræðingur & doktor í heilbrigðisvísindum
Höfundur rekur heilsuráðgjöfina Heilræði. www.heilraedi.is; heilraedi.blogspot.com