Niðurstaða áhættumatsins er að aspartam og niðurbrotsefni þess eru örugg í því magni sem fólk neytir þess með fæðu. EFSA hefur lagt mat á allar fáanlegar vísindarannsóknir á aspartami og niðurbrotsefnum þess, bæði á mönnum og dýrum. Við áhættumatið var þeirri tilgátu hafnað að aspartam geti valdið skemmdum á genum eða ýtt undir krabbamein. Einnig var það niðurstaða stofnunarinnar að aspartam skaði ekki heila né taugakerfi og hafi ekki áhrif á hegðun eða atferli barna eða fullorðinna.
Jafnframt að aspartam hafi ekki neikvæð áhrif á fóstur í því magni sem þess er neytt samkvæmt ÁDI-gildi (ásættanleg dagleg inntaka). Niðurstaða stofnunarinnar felur í sér að ekki er ástæða til að breyta ÁDI-gildi sem er 40 mg/kg líkamsþunga á dag. Það gildi á þó ekki við um fólk sem hefur sjaldgæfan efnaskiptasjúkdóm eða fenýlketónúríu (PKU).
Niðurbrotsefni aspartams
Aspartam brotnar mjög hratt niður í líkamanum og hugsanleg áhrif í líkamanum stafa því af niðurbrotsefnunum þremur, þ.e. aspartínsýru, fenýlalaníni eða metanóli. Matvælaöryggisstofnunin skoðaði mögulega hættu frá þessum niðurbrotsefnum og var niðurstaðan sú að engin hætta stafi af þeim í því magni sem neytendur fá í sig.
Fenylalanín er amínósýra sem er þáttur í próteinum í mörgum matvælum. Hún hefur eituráhrif í háum skömmtum, sérstaklega í fóstri kvenna sem eru með hinn sjaldgæfa efnaskiptasjúkdóm fenýlketónúríu (PKU). Að öðru leyti stafar ekki hætta af efninu.
Metanól er í og getur komið úr matvælum s.s. ávöxtum og grænmeti og er einnig náttúrulega framleitt í líkamanum. Það hefur eituráhrif ef mjög stórra skammta er neytt s.s. við neyslu á sumum heimabrugguðum spíra. Niðurstaða stofnunarinnar er að metanól úr aspartami er lítið brot af því metanóli sem fólk fær í sig og það leiði því ekki til aukinnar hættu fyrir neytendur.
Aspartínsýra er amínósýra sem er í próteinum. Niðurstaða stofnunarinnar er að aspartínsýra úr aspartami hafi ekki áhrif á öryggi fyrir neytendur.
Ásættanleg dagleg inntaka ÁDI-gildi (ADI-Acceptable Daily Intake), áður þýtt sem daglegt neyslugildi, er það magn efnis í mat eða neysluvatni sem talið er óhætt að neyta að jafnaði daglega alla ævi án þess að hætta stafi af. Magn efnisins er gefið upp í mg/kg líkamsþyngdar. Samkvæmt þessu má 60 kg maður því að jafnaði neyta 60xÁDI-gildi af viðkomandi efni á dag.
ÁDI-gildi tekur til allra aldurshópa og þar með einnig barna, en þá verður líka að taka tillit til líkamsþyngdar. Ásættanleg dagleg inntaka tekur ekki til þeirra sem hafa efnaskiptasjúkdóminn PKU en þeir sem þjást af honum mega alls ekki neyta matvæla sem innihalda amínósýruna fenýlalanín. Það er því skylt að merkja allar vörur sem innihalda aspartam með orðunum „Inniheldur fenýlalanín“.
Samkvæmt reglugerð um aukefni í matvælum eru mörk sett fyrir hversu mikið má vera af sætuefnum í hinum og þessum matvælum. Þessi mörk eru sett með tilliti til neysluhátta og þá líkum á því að magn fari yfir ÁDI-gildi við neyslu, en auk þess er litið til þess hversu mikið þarf af efninu til að ná fram sætubragði í tilteknum matvælaflokkum.
Frétt frá www.mast.is