Þetta góða ástand má rekja til góðs árangurs sem náðst hefur með samhentu átaki allra hagsmunaaðila þ.e. alifuglabænda, sláturleyfishafa, eftirlitsaðila, stjórnvalda og neytenda við að tryggja að mengaðar afurðir fari ekki í dreifingu. Til marks um þann góða árangur sem hefur náðst bæði hvað varðar Campylobacter- og Salmonella-mengun í kjúklingaafurðum á markaði má nefna að töluvert umfangsmikil vöktun sem Matís og Matvælastofnun (MAST) stóðu að árin 2012-2013 sýndi ekki fram á nein sýni með Salmonella eða Campylobacter.
Vegna fyrirhugaðrar tilnefningar rannsóknastofu Matís sem tilvísunarrannsóknastofu (e. reference laboratory) fyrir ýmsa matarsýkla hófst á sl. ári undirbúningur að uppsetningu sérhæfðra mæliaðferða til greininga á þessum bakteríum. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að koma upp aðferð til mælinga á s.k Shiga toxin myndandi E. coli bakteríum en þær valda hættulegustu sýkingum af völdum baktería úr hópi sjúkdómsvaldandi E. coli baktería. Á undanförnum árum hafa komið upp nokkur sjúkdómstilfelli af völdum þessarar bakteríu hér á landi og er því vissulega orðin þörf á því að kanna útbreiðslu þessa hættulega sýkils í dýrum, afurðum og umhverfi.
Rannsóknastofa Matís hefur á undanförnum árum sérhæft sig í gæða- og öryggismælingum fyrir lyfjaiðnaðinn. Fyrst og fremst hefur verið um að ræða örverumælingar á tilbúnum lyfjum, hráefnum til lyfjagerðar og á umhverfissýnum úr lyfjaframleiðsluumhverfi. Margar af þeim aðferðum sem eru notaðar í þessu sambandi eru sérhæfðar fyrir lyfjaiðnaðinn og í mörgum tilfellum hefur rannsóknastofan þurft að útfæra sérstaklega þessar aðferðir til að mæta þeim kröfum sem gerðar eru. Sú þekking sem hefur skapast hjá rannsóknastofunni í þessu sambandi hefur reynst ákaflega dýrmæt og lyfjaiðnaðurinn á Íslandi og skyld starfsemi er nú ákaflega þýðingarmikil fyrir starfsemi rannsóknastofunnar.
Nánari upplýsingar veitir Franklín Georgsson, sviðsstjóri Mælingar og miðlunar hjá Matís.
Heimild: matis.is