Steiktur lax með epla, valhnetu og gráðostahjúp ásamt rauðrófu-bankabyggi
Aðalréttur fyrir 4
Laxinn:
800g laxaflök skorin í huggulegar steikur (bein og roðlaus)
Epla, valhnetu og gráðostahjúpur:
1 stk grænt epli (skorið í litla bita)
¼ meðalstór agúrka, kjarnhreinsuð (skorin í litla bita)
4 msk valhnetur (gróft saxaðar)
100 g gráðostur
3 msk grískur jógúrt
½ tsk sætt sinnep
1 tsk hunang
Safi úr ¼ sítrónu
1 msk ferskt dill, saxað
Salt og pipar
Aðferð :
Blandið saman jógúrt, sinnepinu, hunanginu og dillinu, blandið eplinu, agúrkunni og hnetunum útí og smakkið til með sítrónusafanum, salti og pipar. Steikið laxinn á vel heitri pönnu í örlítilli olíu, fyrst í 1 mínútu á roðhlið og síðan snúa honum og steikja í 30 sek. Þá er laxinn færður í ofnbakka og látið sárhliðina snúa upp, kryddið laxinn með salti og pipar. Hitið ofninn í 150°c, setjið laxinn inn og bakið í ca.10 mín þá er laxinn tekinn út og ein matskeið af epla, gúrku og valhnetublöndunni sett ofaná hverja steik og gráðosturinn mulinn yfir hann, ofninn settur á yfirhita (grill) og hann settur aftur inní ofn í ca. 3-5 mín eða þar til aðgráðosturinn er aðeins farinn að gyllast og laxinn er eldaður (tíminn fer svolítið eftir ofnum, enn gott ráð er til að athuga hvort lax sé eldaður rétt, er að ef maður ýtir í laxabitann þá ætti hann nánast að detta í flögur , passa bara að skemma hann ekki með of miklu poti.
Rauðrófu-bankabygg
3 dl bankabygg
3 dl vatn
3 dl rauðrófusafi
ca. ½ tsk grænmetiskraftur
2 msk repjuolía (má nota aðra góða olíu)
4 msk rauðrófur úr krukku (skornar ó grófa bita)
2 msk graslaukur
Aðferð:
Blandið saman bygginu, vatninu, rauðrófusafanum, olíunni og grænmetiskraftinum í pott og sjóðið saman við vægan hita í ca.40 mín, (passið að hræra reglulega í pottinum svo ekki klessist saman) þá er bygginu leyft aðeins að standa í ca. 5 mín, þá er rauðrófuteningunum og graslauknum bætt útí og smakkað til með S og p, gott er að setja smá rauðrófusafa og smá olíu rétt fyrir framsettningu til að gera byggið safaríkara.