Sundið mikla er þann 29. júní n.k.
“Planið mitt er að synda 60 km eða meira, 2.5 km á klukkustund myndi gera 60 km. Stundum fer ég meira og stundum minna geri ég ráð fyrir. Hef verið að synda 2 km undanfarið og farið 6400 m en svo fór ég í þrjá tíma á laugardaginn síðasta og þá fór ég 9.2 km. Vegalengdin frá Rvk til Selfoss er um 58 km” sagði Guðmundur.
Hver er bakgrunnur þinn í íþróttum og starfi?
Allt frá unga aldri hef ég verið viðloðandi íþróttir. Byrjaði 6 ára gamall í handbolta og fótbolta, hélt því áfram til 14 ára aldurs, en þá tók ég alveg U- beygju með íþróttir.
Pabbi var á sínum tíma landsliðsmaður í sundi og síðar meir sundþjálfari og fór meðal annars á Ólypíuleikana árið 1984 sem þjálfari landsliðs Íslands.
Eftir að hann stofnaði Sunddeild Stjörnunnar í kringum 1988 þá prófaði ég fyrst að æfa sund. Það gekk nú ekki lengi enda áhuginn í fótbolta og handbolta.
Það var svo ekki fyrr en ég var 14 ára gamall að ég fór að æfa sund eftir að hafa farið í utanlandsferð með pabba og Sunddeild Ármanns sem hann þjálfaði á þeim tíma. Ég sá bætingar á hverju móti og þar leið mér vel. Ég komst svo í Úrvalshóp Sundsambands Íslands þegar ég var 17 ára gamall og keppti á einhverjum mótum með fyrir Íslands hönd.
Það var svo þegar ég var 18-19 ára gamall að ég byrjaði að þjálfa unga krakka að ég fór að sýna þjálfun meiri og meiri áhuga. Árið 2004 tók ég við starfi yfirþjálfara hjá Sundfélaginu Vestra á Ísafirði og kviknaði áhuginn á þjálfun fyrir alvöru þá. Skellti mér ári síðar í Kennaraháskóla Íslands á íþróttasviði og útskrifast árið 2008 sem íþróttafræðingur með megin áherslu á sund.
Ég tók í kjölfarið við Sunddeild KR sem yfirþjálfari sem ég stýrði í 2 ár frá 2008 - 2010 og fór meðal annars sem annar af tveimur þjálfurum á Norðurlandameistaramót unglinga. Í kjölfarið bauðst mér að fara erlendis að þjálfa og fór ég til Kanada þar sem ég fæddist og tók að mér yfirþjálfarastöðu. Eftir að hafa verið í 5 mánuði þar kom ég heim í jólafrí og varð fyrir áfalli. Eitt högg í bænum, skall í jörðinan og höfuðkúpubrotnaði.
Hvar kviknaði hugmyndin að áheitasundinu?
Hugmyndin að áheitasundinu kemur í kjölfarið á þessu áfalli. Ég fór aftur til Kanada í lok febrúar 2011 til að sinna starfi mínu og halda áfram minni endurhæfingu enda var ég kominn á núll punkt í líkamsástandi. Læknar sögðu við mig að ég yrði að taka því rólega og ég gæti ekki litið á mig sem afreksmann þegar ég æfði því líkaminn hefði í raun byrjað upp á nýtt með þol og styrk.
Ég prófaði í byrjun febrúar að synda 50 metra og ég komst alveg heila 40 metra áður en ég þurfti að stoppa. Frá þessum tímapunkti tók við grimm endurhæfing.
Ég ætlaði sko að sýna að ég gæti komið mér í almennilegt form aftur og myndi einhverntíman keppa á ný.
Ég ákvað síðan síðla árs 2011 að þegar mér væri farið að líða betur, þá myndi ég einhvern tímann synda til góðs og markmiðið var ekki sett lágt heldur að synda í 24 tíma og safna áheitum.
Ástæða þess var að Arnoddur Erlendsson sundþjálfari sagði mér á sínum tíma sögu af því hann og vinur hans Smári Harðarson frá Vestmannaeyjum hefðu synt í 15 tíma til styrktar Sunddeild ÍBV. Ég man að ég skaut að honum afhverju þeir hafi ekki farið alla leið í 24 tíma... Ég var 17 ára gamall unglingur á þeim tíma en ég sagði honum þá að einhverntíman myndi ég synda í 24 tíma bara til að bæta um betur.
Þetta hvarf þó úr huga mér fljótt eftir að orðin voru látin falla en komu upp aftur eftir áfallið. Svo núna þegar ég varð 33 ára þá setti ég á facebook að ég myndi ná ákveðnum hlutum áður en ég yrði 35 ára og þar á meðal var það að synda þessa 24 tíma til góðs.
Hvernig verður fyrirkomulagið á sunddeginum ?
Sundið hefst 27. júní í Sundlaug Garðabæjar í Ásgarði og mun ég vera þar með mína eigin braut til að synda á.
Ég mun alltaf fá 5 mínútur á hverjum klukkutíma til að næra mig og fara á klósettið en annars synda alltaf í 55 mínútur.
Stefnan er að hafa þetta stóran dag og bjóða fólki að taka þátt í sundinu sjálfu og er hugmyndin sem stendur sú að hver og einn getur skráð sig til leiks í hálftíma í senn og greiða fyrir það skráningargjald. Sá hinn sami getur að auki safnað áheitum á sundið sitt og á þann hátt fengið fólk til að styrkja virkilega gott málefni sem stendur okkur öllum nær á einhvern hátt.
Eins mun fólk geta lagt inn á reikning beint og styrkja þannig málefnið og mun væntanlega fara fram einnig einhversskonar sölumennska í Ásgarði og getur þá fólk keypt sér kaffi og kleinu eða eitthvað því um líkt.
“Við erum ekki komin með heildar skipulagði en þetta er allt að púslast saman þessa dagana”.
Hverjir koma að verkefninu með þér?
Eins og staðan er í dag þá erum við að mynda saman hóp af góðu fólki til að koma nálægt þessum frábæra degi. Líf - styrktarfélag hefur ákveðið að koma að þessu með mér www.gefdulif.is einnig Astma og Ofnæmisfélag Íslands. Tengingin við AO er gegnum Fríðu Rún Þórðardóttur næringarfræðing sem ætlar að aðstoða mig með næringuna í tengslum við sundið enda verður þetta mjög krefjandi sund og veitir mér ekki af því að hafa jafn mikinn snilling og Fríðu Rún mér við hlið varðandi það hvernig ég á að næra mig þegar svona langt verkefni er fyrir höndum. Heilsutorg, með þau Fríðu Rún, Önnu og Tómas ætlar einnig að koma að áheitasundinu og án efa eiga fleiri eftir að bætast í hópinn.
Kári Jónsson Íþróttafulltrúi Garðabæjar hefur svo gefið sitt leyfi til að fá sundlaugina í Garðabæ til afnota fyrir þetta sund og er ég honum ævinlega þakklátur fyrir það enda er ég mikill Stjörnumaður og langar mig að synda í þeirri laug sem ég ólst hvað mest upp í og í lauginni þar sem sundiðkun mín hófst fyrst.
Hver veit nema einn daginn taki ég upp á því að þjáfa Sunddeild Stjörnunnar enda hefur það verið draumur minn í töluvert langan tíma, minn bær, mitt félag og sunddeild sem faðir minn stofnaði.
Hverjir eru bakhjarlarnir ?
Í dag hefur Speedo á Íslandi komið fram og gefið mér Mp3 spilar til að synda með og mun það hjálpa mér að dreifa huganum á meðan sundið fer fram. Tómas Torfason hjá Speedo hefur alltaf staðið sterkur á bakvið sundið á Íslandi og er það ómetanlegt að hann tók stökkið og aðstoðar mig með þetta.
Er hægt að synda annarsstaðar á landinu t.d. ef fólk býr á Egilsstöðum ?
Eins og staðan er í dag þá fer sundið bara fram í Garðabæ. Við erum rétt að byrja að setja upp þessa helgi en ef áhugi er fyrir hendi annarsstaðar á landinu til að synda og styrkja gott málefni þá er sjálfsagt að að hafa samband við okkur og fá upplýsingar um tímaramma og hvað þarf að vera til staðar til þess að annað áheitasund geti farið fram.
Þessar upplýsingar munu liggja fyrir á komandi vikum. Það væri frábært ef þetta yrði stórviðburður um land allt og þúsundir manna myndu taka þátt í þessu.
Á Íslandi synda þúsundir manna á hverjum degi um land allt og afhverju ættum við ekki að geta sett upp alvöru dæmi fyrir alla til að taka þátt í því!
Hvernig getur fólk stutt við eða hreinlega tekið þátt í verkefninu með þér?
Eins og ég nefndi hér rétt á undan þá munum við setja upp einhvern tímaramma þar sem fólk getur skráð sig á settan tíma til að synda. Þá skráir maður sig inn í hálftíma sund td. frá 13:00 - 13:30 og þá reynir sá sundmaður að synda eins langt og hann kemst á sínum tímaramma.
Sá hinn sami gæti þá safna áheitum frá vinum, ættingjum, nágrönnum og fyrirtækjum um að styrkja sig td. 100 kr á hverja 100m sem hann syndir og ef hann nær segjum 1000m þá styrkir fólk hann um 1000 kr. Svo er undir honum komið að fá sem flesta til að styrkja sig.
Eins verður settur upp reikningur þar sem fólk getur lagt inn frjáls framlög. Þá er um að gera að leggja inn upphæð að eigin vali. Setja má inn sem skýringu, eigið nafn eða ennþá skemmtilegra, nafn einstaklingsins sem hann styrkir.
Eins og áður segir þá er verið að vinna í þessum ramma, þetta eru bara svona ákveðnar hugmyndir sem ég hef verið að gæla við en þetta skýrist allt saman betur á komandi vikum.
Eru börn velkomin að synda með þér ?
Allir syndir einstaklingar verða velkomnir í laugina. Það er alveg spurning hvort það þurfi að setja upp ákveðinn tíma fyrir börn til að synda en fyrir mér virkar það þannig að ef einstaklingur treystir sér til að synda hvort sem það er 2 ferðir eða 40 ferðir þá er sá hinn sami velkominn til að skrá sig og synda til góðs.
Við á Heilsutorgi.is hvetjum auðvitað alla til að leggja góðum málsstað lið og heita á Guðmund. Og einnig þá sem kjósa að synda með honum.