Tölurnar þýða að á árinu 2014 fengu 125 af hverjum þúsund íbúum ávísað þunglyndislyfjum, en þeir voru 115 af hverjum þúsund árið 2004.
Algengi þunglyndis á Norðurlöndum er talið vera á bilinu 3,5 – 5 % og að 15% geti átt við þunglyndi að stríða einhvern tíman á lífsleiðinni (3). Hvort fjöldi ávísana á þunglyndislyf endurspeglar algengi þunglyndis á Íslandi er ósvarað, enda eru lyfin stundum notuð við öðru en þunglyndi, en sérstaða Íslands verðskuldar athygli.
Notkun annarra tauga- og geðlyfja er einnig mikil á Íslandi miðað við nágrannaþjóðirnar, en Ísland er einnig hæst í notkun svefnlyfja, örvandi lyfja og sterkra verkjalyfja (ópíóíða) (4). Á árinu 2014 fengu um 30 þúsund einstaklingar ávísað verkjalyfjum, 33 þúsund fengu svefnlyf og um 7,5 þúsund fengu örvandi lyf (1).
Til að útskýra mun á Íslendingum og öðrum þjóðum hefur verið bent á að þunglyndislyf eru einnig notuð við öðrum ábendingum eins og við ADHD. Það á t.d. við um lyfið Wellbutrin, en reyndar þekkist slík notkun einnig meðal annarra þjóða.
Þá gæti skortur á öðrum úrræðum en lyfjameðferð hér á landi, s.s. sálfræðimeðferð, haft áhrif. Fjöldi starfandi tauga- og geðlækna er nokkurn veginn sá sami hér á landi og meðal annarra Norðurlandaþjóða en geðlæknisþjónusta á sjúkrastofnunum er minni hér á landi. T.d. eru fjórfalt fleiri legudagar skráðir á geðdeildum í Svíþjóð í samanburði við á Íslandi (4).
Hér á landi sinnir heilsugæslan flestum þeim sem fá tauga- og geðlyf en enginn samanburður við aðrar þjóðir er til um það hvernig ávísanir á þessi lyf skiptast á ólíkar sérgreinar lækna.
Hvað þunglyndislyf, svefnlyf og verkjalyf varðar er fátt sem bendir til að læknar hér á landi ávísi stærri skömmtum en þekkist meðal hinna þjóðanna heldur virðist munurinn liggja í fjölda notenda.
Þegar jafn stór hluti þjóðarinnar fær ávísað tauga- og geðlyfjum og raun ber vitni þá vakna spurningar um hvernig ástatt sé fyrir þeim sem nota lyfin. Lyf sem verka á miðtaugakerfið geta haft víðtæk áhrif á þætti eins og jafnvægi, viðbragðstíma og einbeitingu. Rétt er að benda á að fylgiseðlar með lyfjum í sérlyfjaskrá hafa að geyma nákvæmar leiðbeiningar um rétta notkun og verkun lyfjanna.
Rannsóknir hafa sýnt að varasamt getur verið að stjórna ökutæki fyrir þá sem nota lyf eins og Imovane, Zopiclone, Alprazolam, Tafil, Rivotril, Diazepam, Halcion, Fluoxetin, Citalopram, Sertral, Esopram, Oropram, Parkodin Forte, Parkodin, Contalgin og Oxycodone þar sem áhrif lyfjanna eru lengi að fara úr blóðinu (5,6,7).
Læknar ættu því að ráðleggja fólki sem fær ávísað þessum lyfjum að fara með fyllstu gát þegar það sest undir stýri. Vitað er að ákveðinn hluti umferðaróhappa hefur verið tengdur lyfjaakstri í löndum þar sem lyfjanotkun er mun minni en á Íslandi.
Embætti landlæknis hefur eftirlit með lyfjaávísunum ávanabindandi lyfja og hefur til skoðunar ýmsa einstaklingbundna þætti í því eftirliti. Stór hópur fólks leggst inn á sjúkrahús vegna lyfjaeitrana á hverju ári, fer í meðferð og einhverjir deyja vegna ofnotkunar þessara lyfja. Um áhrif lyfjanotkunar á aðra samfélagslega þætti er minna vitað og er þörf á að rannsaka þá ekki síður en t.d. áfengisfíkn.
Ólafur B. Einarsson verkefnisstjóri
Magnús Jóhannsson læknir
Lárus S. Guðmundsson lyfjafræðingur
Af vef landlaeknir.is