Samantektin byggir á kortlagningu JA CHRODIS á fyrirliggjandi áætlunum Evrópuþjóða og er henni ætlað að styðja lönd í að móta árangursríkar og heildrænar áætlanir um forvarnir og meðferð við sykursýki og, í víðara samhengi, langvinnra sjúkdóma.
Þrátt fyrir að Evrópulönd hafi náð árangri í stefnumótun á þessu sviði er almennt mismunandi hversu mikið þau hafa fjárfest í og innleitt heildrænar aðgerðir til að fyrirbyggja og meðhöndla sykursýki. Á sama tíma heldur byrði sjúkdómsins áfram að aukast með tilheyrandi áskorunum fyrir einstaklinga, heilbrigðiskerfi og efnahag þjóða.
Nýjustu tölur frá Alþjóðasamtökum sykursjúkra (IDF) gefa til kynna að árið 2015 hafi um 415 milljónir manna á heimsvísu verið með sykursýki og þar af tæpar 60 milljónir Evrópubúa. Á Evrópusvæðinu er áætlað að um 9% heildarútgjalda til heilbrigðismála komi til vegna sykursýki, sjá IDF Diabetes Atlas 2015.
Dæmi um þætti sem hafa reynst gagnlegir í þróun, innleiðingu og viðhaldi áætlana eru m.a. forysta á landsvísu, þátttaka viðeigandi hagsmunaaðila, þar með talið þeirra sem glíma við sjúkdóminn, í þróun og framkvæmd áætlananna og að gert sé ráð fyrir fjármagni og öðrum aðföngum sem til þarf.
Helstu áskoranirnar eru t.d. að þjóðir þurfa að nálgast sykursýki á heildrænni hátt en nú er gert og stuðla að samvinnu margra samfélagsgeira, auk heilbrigðisgeirans.
Einnig þarf að taka upp skilvirkari aðferðir til þess að hrinda áætlunum í framkvæmd, fylgjast með framgangi þeirra og meta þær. Einnig nauðsynlegt að lönd eigi gagnagrunna með upplýsingum um tíðni sykursýki.
Samantekt JA CHRODIS fyrir áætlanagerð á sviði sykursýki.
Í þessu sambandi er einnig bent á nýja skýrslu WHO um málefnið, WHO Global report on diabetes (2016).
JA CHRODIS-teymi Embættis landlæknis.