Markmið vísindamannanna við MS-deildina í Odense University Hospital (OUH) var að finna nýja aðferð til að greina MS frá NMO-sjúkdómnum (neuromyelitis optica) sem er sjaldgæfur sjúkdómur sem líkist MS.
Í NMO ræðst ónæmiskerfið á augu og mænu en þrátt fyrir hvað margt er líkt með MS og MNO er um tvær mismunandi sjúkdómsgerðir að ræða sem ekki má meðhöndla á sama hátt. Ef NMO-sjúklingur fær MS-lyf á hann á hættu á því að missa sjónina eða fatlast.
Rétt greining er því mjög mikilvæg og þrátt fyrir að nú sé hægt að útiloka eða greina NMO með sérstakri blóðrufu (þarf að senda erlendis til greiningar) þá er þessi nýja uppgötvun frábær og auðveld í meðförum. Með henni verður hægt að segja til um hvort einstaklingur þjáist af MS-sjúkdómnum eða NMO og þar með tryggja að þessir tveir hópar fái strax rétta meðferð.
Í rannsóknini fundu vísindamennirnir ummerki um tiltekin mótefni í þvagi sem geta sagt til um með 90% vissu hvort einstaklingur sé með MS-sjúkdóminn eða ekki, jafnvel mjög snemma í sjúkdómsferlinu. Helle Hvilsted Nielsen, yfirlæknir á MS-deild OUH, segir þvag vera einstaklega gott og aðgengilegt efni sem endurspegli líðan einstaklingsins. Rannsóknin hafi sýnt vísindamönnunum fram á að hægt sé að greina í þvagi ýmsa sjúkdómsferla sem tengjast heilanum og að með því að skoða þvag einstaklings sé hægt að fá innsýn í hvað gerist í heila viðkomandi án þess að þurfa að hafa beinan aðgang að heilanum.
Þessi greiningaraðferð með þvagprufu er enn í þróun en lofar góðu. Verði einfalt þvagpróf til greiningar að veruleikamunu miklir fjármunir sparast sem og tími og orka heilbrigðisstarfsfólks, það verður minna álag á umsetin tæki auk þess sem einstaklingurinn verður fyrir mun minni óþægindum.
Vísindamennirnir við OUH voru fyrstir í heiminum til að kanna möguleika þess að greina MS og NMO í þvagi og gefa þessar góðu niðurstöður þeim tilefni til þess að halda rannsóknum sínum áfram.
Við þessa frumrannsókn prófuðu vísindamennirnir aðeins einstaklinga sem voru með örugga og staðfesta sjúkdómsgreiningu og er því næsta skref að kanna einstaklinga þar sem meiri vafi leikur á um greiningu. Því til viðbótar á að kanna hvort þvagprufa gagnist líka við greiningu á öðrum sjúkdómum í taugakerfinu.
Það verður spennandi að fylgjast með og sjá hvað verður.
Til að fá MS-greiningu þurfa einkenni sem benda til taugaskemmda að vera til staðar frá a.m.k. tveimur stöðum í miðtaugakerfinu sem hafa komið á mismunandi tíma og síðan gengið til baka (tvö köst).
Greining getur þó byggst á einu kasti sé vissum skilyrðum uppfyllt á segulómun en greining getur þó aldrei byggt á segulómuninni eingöngu.
Heimild má sjá hér
Höfundur greinar:
Bergþóra Bergsdóttir
Grein af vef msfelag.is