Spennan fór stigvaxandi og náði síðan hæstu hæðum þegar Aníta Hinriksdóttir úr ÍR fór á ráslínuna fyrir 800 m hlaupið. Þar mætti hún tveimur fótfráum hlaupurum, Rose-Anne Galligan frá Írlandi og Alinu Krebs frá Þýskalandi.
Aníta tók forystu strax í upphafi hlaups og hélt hún henni allt til loka undir mikilli hvatningu frá áhorfendum.
Hún náði að hlaupa á jöfnum hraða allt hlaupið og þegar einn hringur var eftir voru keppinautar hennar ekki með sama styrk og Aníta.
Síðasta spölinn hljóp hún síðan með bros á vör og kom síðan í mark á nýju Íslandsmeti og nýju Evrópumeti 19 ára og yngri 2:01,81.
Í viðtali eftir hlaupið sagðist hún vera vel sátt við árangurinn og að sig hlakki mikið til að mæta sterkustu jafnöldrum sínum í heimi á Millrose Games í New York eftir 4 vikur.